Tímarit Máls og menningar - 01.12.1970, Blaðsíða 66
Tímarit Máls og menningar
bókmenntaverk þessarar tegundar hefur hann rýnt og greint á sama hátt
og mörg stórvirki raunsærra bókmennta. Við þetta bætist að hann hefur á
síðustu árum að nokkru endurskoðað afstöðu sína til höfunda sem hann taldi
áður í hópi módernista, t. d. Brechts. En það gefur nokkra vísbendingu um
hvað Lukács álítur rismesta skáldskap módernismans að hann skuli nefna
Proust, Joyce, Kafka, Musil og Beckett sem höfuðfulltrúa hans.
Verk módernistískra höfunda einkennast að mörgu leyti af því sama og hér
hefur verið rakið sem einkenni innsæisskáldskapar. Þau endurspegla
ekki samstæðan samfélagsveruleika einsog verk raunsæishöfunda heldur
huglægar sannreyndir og geðhrif. Þau slíta manninn úr raunverulegu sam-
félagsumhverfi og sýna hann einangraðan og firrtan á meira eða minna sér-
tekna vísu. Persónur þeirra eru oft sundraðar og óheilar. Þau gerast ekki í
hlutverulegum tíma, heldur hugverulegum eða sj álfsverulegum. Þau öðlast
aldrei samskonar sjálfstæði og raunsæ verk, þau verða alltaf óaðskiljanlegur
hluti af höfundum sínum. Sögur þeirra eru oftast allegoríur (líkingasögur).
En þau eru í augum Lukácsar enganveginn algerar andstæður raunsæisbók-
mennta. Og þau eru ekki óekta. Þau eru afsprengi sannrar reynslu höfunda
sinna af ákveðnu samfélagsástandi á ákveðnum tíma, af stríði, fasisma, heims-
valdastefnu og sóttbrigðum borgaralegs þjóðfélags; í þeim speglast firringin,
niðurbútun og afskræming mannsins. Sundraður veruleiki þessara verka er
sönn afmynd af raunverulegu samfélagsástandi. Sú ringulreið og angist
(Angst) sem þau lýsa oft eru vissulega til í samfélögum höfundanna. En þar-
sem módernisminn endurspeglar þessa afskræmistilveru beint og ókrítískt,
þarsem hann heitir stíl og frásagnartækni sem leggja áherzlu á óhj ákvæmileika
hennar, þar sem hann sýnir hana einangraða frá þeim öflum sem í raunveru-
leikanum vinna gegn hinni, þá má segja að hann leggi sitt af mörkum til að
afskræma afskræmið ennþá meira.
„Það er vissulega ofurskiljanlegt að reynsla og lifun manna í kapítalistísku
þjóðfélagi samtímans veki hjá þeim angist, viðbjóð, einangrunar- og ein-
manakennd, tortryggni gagnvart sjálfum sér og öðrum, fyrirlitningu og sjálfs-
fyrirlitningu, örvæntingu o. s. frv. í rauninni er sú veruleikalýsing sem felur
ekki í sér og framkallar slíkar tilfinningar bæði fölsk og fegruð. En spurn-
ingin er ekki hvort þetta sé allt raunverulegt, heldur hvort þetta sé allur raun-
veruleikinn. Spurningin er ekki hvort sleppa eigi að lýsa þessu öllu, heldur
hvort láta eigi hér við sitja.“
Höfuðásökun Lukácsar á hendur módernistunum er því sú að þeir endur-
spegli ekki veruleikann sem heild, heldur aðeins brot af honum, þ. e. huglæga
256