Tímarit Máls og menningar - 01.06.1981, Síða 23
vitund lesandans. Þau eru „sjálfsmynd draumlynds manns með opin augu“ og sé
það eitt af hlutverkum skaldskapar að dýpka skynjun lesandans, eru ljóð Snorra
Hjartarsonar mikill skáldskapur.
Það hefur dimmt í heiminum. Haustskuggarnir lengjast sífellt kringum
aldraðan áhorfanda sem ekki getur leynt kvíða sínum og ótta um verðmæti
lifsins og jarðarinnar i breytilegri tilveru. En hann elur i brjósti von um að
mannkynið lifi af þá hættu sem það hefur búið sér sjálft. Af þessari tviþættu
kennd kvikna ljóð hans í spennunni milli andstæðna. Myndir og líkingar sækja
þau til umhverfis og náttúru sem er „eilif og söm“, vekur gleði og aðdáun,
heldur vitundinni vakandi. En ljós og skuggar leika nú stærra hlutverk en
nokkru sinni fyrr.
Fugl, vængur og flug eru orð sem aftur og aftur koma fyrir i ljóðum Snorra
Hjartarsonar, tákn þrár hans og draums um veruleikann handan veruleikans þar
sem hjarta hans er ungt og óskir hans sofa. í hauströkkrinu yfir sér heyrir hann
ennþá vængjatökin „yfir auðu hreiðri í störinni við fljótið“. Þannig ber
ljóðtákn hans skýrt fyrir án þess að nokkuð skyggi á þau af því að hann hefur
náð sliku valdi á list sinni að ekkert hindrar þann samleik orðs og mynda, ljóss
og skugga, sem hlaðinn er merkingu sem öll verður að komast til skila i andrá
heillar skynjunar.
Og nú er sú komin sem er frjómold hins góða lifs og hann þráði heitast:
Kvöldar á himni, kvöldar i trjám,
kyrrðin stígur upp af vötnunum,
læðist í spor mín gegnum rökkrið
sveipuð léttri drifhvitri slæðu,
tekur mjg við hönd sér, hvislar
máli laufs máli-gáru við strönd
og löngu kulnaðs náttbáls á heiði:
ég er bið þin og leit, ég er laun
þeirrar leitar og þrár, ég er komin.
Á hádegi lifsins stóð Snorri Hjartarson í straumi þess miðjum, umleikinn kaldri
birtu dags og stríðs, og sló gullin stef á skjöldu. Höggin úr smiðjunni láta nú
ekki eins hátt í eyrum, en gripirnir frá hendi smiðsins með þessi stóru, skæru
augu nálgast draum hans um að ljóð ljóða fljúgi honum af vörum. Hann slær
ekki myndstef sín á skjöldu. Þau glóa í rökkrinu.
141