Tímarit Máls og menningar - 01.06.1981, Side 96
Tímarit Máls og menningar
mikilleik. Anton og Kleópatra verða elskendurnir miklu einungis í fjórða og
fimmta þætti. Og ekki aðeins miklir elskendur. Þau kveða upp dóm yfir
veröldinni. Að leikslokum birtist að nýju hugmið upphafsins. Himinn og jörð
eru of lítil fyrir ást. Orð Antons endurtekur Kleópatra rétt áður en hún deyr:
hve lítilmótlegt er að vera Sesar!
hitt er stórt, að fremja
það verk sem lýkur öllum öðrum dáðum,
fjötrar allt umrót, heftir höpp og slys;
að sofa, og aldrei sinna meir því skarni
sem fóstrar bæði betlarann og Sesar. (V,2)
í Ríkaróiþriðja varð gjörvallt konungsríkið að lokum minna virði en hross.
Röskur hestur gæti bjargað lífi manns. Anton og Kleópatra kæra sig ekki um að
flýja, og hafa engan stað að flýja til. „Allt konungsvald er leir.“ í þessum miklu
leikritum báðum hefur valdið, og þeir sem hafa það á hendi, hlotið dóm. Og
þeim dómi verður ekki áfrýjað. Þegar einhver af hetjum Racines hefur stytt sér
aldur, er harmleiknum lokið, og samstundis hættir veröldin og saga hennar að
vera til. Og hefur raunar aldrei verið til. Þegar Anton og Kleópatra svipta sig
lífi, er harmleiknum lokið, en sagan og veröldin heldur áfram. Útfarar-ræðuna
yfir líkum Antons og Kleópötru flytur hinn sigursæli þrívaldur, Oktavíus, sá
sem verða skal Ágústus Sesar. Mjög svipaða ræðu hélt Fortinbras yfir líki
Hamlets. Hann er enn að tala, en sviðið er autt. Allt stórmenni er horfið. Og
veröldin orðin flöt.
Helgi Hálfdanarson þýddi.
214