Tímarit Máls og menningar - 01.11.1983, Page 5
Helga Sigurjónsdóttir
Ádrepur
Er húmanismi femínismi?
Eg hugsa að flesium kennurum fari eins og mér í fyrstu að ganga hugsunarlítið
inn í starfið eftir að hafa sjálf setið á skólabekk í 13 — 14 ár. Það var ekki fyrr en
eftir nokkur ár í starfi að ég fór að hugsa af viti. Ekki svo að skilja að ég hafi
gengið um eins og höfuðsóttarrolla, svo slæmt var það ekki. Ég held meira að
segja að ég hafi verið álitin fremur „góður“ kennari. Það sem verulega ýtti við
mér eftir þessi fyrstu 3—4 ár var að þá var ég sjálf orðin móðir og innan tíðar átti
mitt eigið barn að fara í skóla. Þá var það sem hugur og hjarta fóru að gera
ýmsar óþægilegar athugasemdir.
Það var eitthvað að. Hvers vegna leið svona mörgum börnum illa í skólanum?
Það sá ég og fann daglega. Hvers vegna voru svona mörg börn „óþekk“? Voru
börnin svona vond? Voru þetta vandræðabörn eða voru þau frá svona „vond-
um“ heimilum? Væri ekki allt í stakasta lagi ef ekki væru þessi börn sem sífellt
voru að gera kennurunum gramt í geði? Var ég kannski ekki nógu ströng? Atti
ég að tukta börnin rækilega af og til? Taka í lurginn á litlum 8 ára pjökkum sem
gekk illa að sitja kyrrir í sætunum sínum? Þegar ég byrjaði að kenna fyrir 25
árum var konum yfirleitt ekki treyst til að kenna 12 ára bekkjum. Þær áttu ekki
að ráða við þessa voðalegu slöttólfa, stóra, stæðilega og kannski kjaftfora
vandræðastráka. Þá voru konur í miklum minnihluta í barnakennarastétt. Nei,
það var eitthvað ennþá meira að. Jafnvel þó að öll börnin væru alger drauma-
börn kennaranna var ekki allt fengið. Hvers vegna þurfti ég t. d. að vera sífellt
að pína börnin með prófum? Hvers vegna varð ég að horfa upp á lítinn strák
ganga eitt sinn með einkunnablaðið sitt (með lágum tölum vitaskuld) að
ruslafötunni, rífa það í tætlur og henda í fötuna? Eg átti víst samkvæmt
reglunum að ávíta hann en það gat ég ekki. Þess í stað grét mitt litla móðurhjarta
og ég vissi að enn sárar gréti barnshjartað sem ég hafði sœrt. Mig langaði mest til
að taka hann í fangið og gráta með honum en auðvitað gerði ég það ekki. Eg lét
á engu bera og hann ekki heldur. Hann var kaldur karl og byrjaður að hlaða
kringum sig varnarmúra. „Iss, mér alveg sama með þessar einkunnir,“ sagði
hann kotroskinn.
A þessum árum var mikið talað um vond börn og vandræðabörn. Vandræði
barnanna voru í því fóigin að þola ekki skólakerfið. Þetta harða, miskunnarlausa
hernaðarkerfi sem feðraveldið hafði komið á. Þar komust mæður ekki upp með
475