Tímarit Máls og menningar - 01.11.1983, Blaðsíða 85
Er víst að 7. áratugurinn sé liðinn
Skáldsagan og átökin í henni
Bókin þykist vera dagbók frá tímabilinu 22/9 1977 til 21/10 það sama ár.
Dagbókina skrifar Frandse sem er 33 ára eða þar um bil. Þegar skáldsagan
hefst er hann fluttur í kommúnu og hefur fengið það viðfangsefni að þýða
ítalska bók eftir Peter J. Oehlke: Verkalýðsstéttin á Ítalíu — Frá andfasisma
til sögulegrar málamiðlunar. Vegna harðrar persónulegrar kreppu gengur
Frandse stirðlega að þýða og hann reynir þá að greiða úr lífsflækjum sínum
með því að skrifa dagbókina en í henni talar hann til Alexanders, sonar síns.
Það er ekki fyrr en undir lok sögunnar sem við fáum að vita um
hápunktinn í kreppu Frandses, þó að stöðugt sé stefnt að því marki. Vorið
áður gerðust vofeiflegir atburðir í lífi hans og bernskuvinar hans, Frankes,
fyrrverandi atvinnumanns í fótbolta. Frandse finnst hann eiga óbeina sök á
þessum atburðum og reynir að farga sér en með hálfum huga og það
mistekst. Eftir það er hann: „. . . aulinn sem varð einn til frásagnar" (206).
Síðan skilur Frandse við eiginkonu sína, Katrínu, og á ritunartíma sögunnar
býr hún með Per og hefur soninn Alexander hjá sér.
Eftir skelfingar vorsins er Frandse haldinn af sektarkennd og það er
einmitt hún sem heldur sögunni gangandi, — er gangfjöðrin í atburða-
rásinni. Frandse verður að skilja þátt sinn í harmleiknum sem þá átti sér
stað; hann þarf sjálfur að öðlast skilning á honum og einnig þeir sem á eftir
koma, en um það á Alexander að sjá. Þá fyrst getur hann aftur orðið virkur í
pólitísku starfi.
I málfari bókarinnar sjást þess greinileg merki að til að byrja með er
Frandse í upplausn og reynir að taka sjálfum sér tak. Áhrif og grunsemdir
hringsnúast í honum án þess að staðnæmast í eðlilegri afstöðu til þess sem
venjulega er kallað: „Eg, þú, það“. Sektarkenndin verður að sjálfsandúð sem
nær alveg fram í tungutakið. Eg er annað hvort strikað út úr setningum eða
fært svo aftarlega í þær að það verður undirskipað sögnum og atviksliðum:
Seinna komast svo aðrar tengslalausar svipmyndir á sinn stað, les eftir mörg ár
um verkfallið mikla, 54, í Philipsverksmiðjunni við Klovermarken, hinu
megin við Amagerbrúargötu, sit og les þetta eins og fjarlæga sögu, man allt í
einu: Þetta er verkfallið sem frú Eskildsen, mamma Frankes, var í. (66)
Þegar líður að lokum skálsögunnar, rúmum mánuði eftir að þessi
frelsandi dagbókarritun hófst, er „Eg“ komið á þann veldisstól sem því ber:
„Eg, við erum komnir, Alexander." (209)
Eins og sjá má af þessu hefur Frandse andúð á sjálfum sér og skrifar til að
vinna bug á henni. Það gerist smám saman meðan hann lítur til baka og
reynir að greiða úr flækjum fortíðarinnar. Sú vinna þvingar hann til þess að
555