Tímarit Máls og menningar - 01.11.1983, Blaðsíða 108
Tímarit Máls og menningar
er reiðubúið að hverfa eins langt aftur og
þarf til að sækja það sem það þráir:
Þú dokar við gluggann
og dreymir innar,
fjær.
— í þeirri vissu að horfin gleði sé lífs
þarna einhvers staðar og hún verði
fundin.
Fortíðarupphafning og eftirsjá and-
stætt nútímavandræðum kom fram í
„Rúnaristu", „Fuglamáli“ og „Dísinni“.
Þar eru andstæður magnaðar beint með
nútíð og þátíð í forminu. I þessum Ijóð-
um mátti líka sjá fortíðaráhugann birtast
í þeirri aðferð sem Þorsteinn frá Hamri
hefur löngum gert að sinni, að leita til
fornrar þjóðmenningar í ýmsum tilbrigð-
um við vísanir, tilhöfðanir, tilvitnanir og
efnisöflun. Þetta er eitt gleggsta einkenni
bókarinnar, síst minna áberandi nú en
áður og eindregnari þjóðlegheitin þar
sem Þorsteinn benti áður jafnt út um
heiminn. Hér hittir lesandi einkum fyrir
eitt og annað úr eddukvæðum,
fornaldarsögum, þjóðsögum og þjóðtrú
— og Sturlungu þar sem lagðar eru nýjar
áherslur og athygli lesandans beint
þannig að minnir á viðsnúningsljóð á
borð við „Skarphéðin í brennunni"
Steins og „Skassið á háskastund" Vil-
borgar en öllu varfærnislegar. Orð eru
lögð í munn Sighvati Sturlusyni
gangandi til móts við dauða sinn í „Or-
lygsstöðum“ (17):
Eg vildi geta mundað fjöður af fugli,
gleymmérei eða klófífu framaní
Kolbein.
Menn halda mig vígreifan, hafi ég
öxina Stjörnu.
Hitt, að ég dángla með skaftinu
sjá þeir eigi . . .
Þorsteinn frá Hamri hefur lengi kunn-
að að nýta sér ýmsa hefðbundna
formþætti í skáldskap sínum, beygja þá
að vilja sínum og ætlun að lyst. Ég hygg
þó að fortíðarlitið í Spjótalögum á spegil
megi m.a. marka af því hve óvenju djarf-
tækur Þorsteinn er þar til skáld-
skaparbragða gömul ljóðhefðarinnar.
Það úir og grúir af ljóðstöfum, rími og
ljúfri hrynjandi — allt frá frjálslegustu
stuðlasetningu til hins hefðbundnasta
kveðskapar — eins og reyndar sést á
mörgum tilfærðum dæmum og óþarft er
að sýna sérstaklega. Kannski má einnig á
þennan hátt reyna að skapa það jafnvægi
og rólegu lífshrynjandi sem mönnum er
holl og eðlileg en er svo afar sjaldgæf í
samfélagi þeirra. — Og skyldi sú sára
fátækt ekki líka eiga sinn þátt í að fleiri
nýleg íslensk skáldverk en Spjótalög á
spegil einkennast af fortíðarliti af ein-
hverju tagi? Það fer svo eftir samhengi
og áherslum hvort menn vilja sjá í því
manninn í leit að sjálfum sér, afturhvarf,
flótta eða eitthvað enn annað.
Ekki aðeins er fortíðin bjartari en
nútíðin í ljóðum Spjótalaga á spegil, þar
er líka meira gert úr draumi en baráttu.
Nútíð og barátta eru báðar úr sívið-
blasandi veruleikanum og í báðum til-
vikum er það þá hann sem stendur sig
ekki. Þegar létt er yfir ljóðunum hefur
draumurinn aftur á móti oft verið að
verki - eins og fortíðin. Þannig var það
t-d. í „Lífi I“, „Nótt“ og „Fjær“. Síðasta
ljóð bókarinnar, „Stef“ (45), er líka fullt
af fisi og fantasíu vegna draumsins sem
er trúandi til alls:
Draumasmiðurinn dýri býr
í steini,
578