Tímarit Máls og menningar - 01.11.1983, Blaðsíða 37
Góðir lesendur og góðir höfundar
sköpun bókarinnar er eðlilegt og sanngjarnt að neytandi hennar beiti sínu
ímyndarafli við lestur hennar.
En þar sem lesandinn er annars vegar er að minnsta kosti um tvær
tegundir ímyndunarafls að ræða. Við skulum því líta á hvorri þeirra er
réttara að beita við bóklestur. Fyrst er að geta þeirrar tiltölulega lítilsigldu
tegundar sem sækir stuðning sinn í einfaldar tilfinningar og er tvímælalaust
persónulegrar ættar. Við verðum fyrir sterkum áhrifum af aðstæðum í bók
vegna þess að þær minna okkur á eitthvað sem hefur komið fyrir okkur eða
einhvern sem við höfum þekkt eða þekkjum. A sama hátt getur lesandi haft
bók í hávegum fyrst og fremst vegna þess að hún kallar fram land, landslag
eða lífshætti sem hann minnist með söknuði úr eigin fortíð. Og einnig gerist
það, og er það versta uppákoman, að lesandinn samsamar sig persónu í
bókinni. Þetta er ekki sú tegund ímyndunarafls sem ég kysi helst að
lesendur beittu.
Hvaða tæki er það þá sem lesandinn á að nota? Það er ópersónulegt
ímyndunarafl og listrænn unaður. Það sem ég held að þurfi að komast á er
listrænt og samhljóma jafnvægi milli hugsunar lesandans og hugsunar
höfundarins. Við ættum að standa eilítið fyrir utan verkið og hafa gaman af
þeirri stöðu, um leið og við njótum til fullnustu, — njótum af ástríðu,
njótum með tárum og hrolli — innra vefnaðar einhvers snilldarverks. Alger
hlutlægni er auðvitað útilokuð í þessum efnum. Allt sem er ómaksins vert er
að einhverju marki huglægt. Það getur til dæmis verið að þið sem sitjið
þarna séuð aðeins draumur minn, og að ég sé ykkar martröð. En kjarni máls
míns er að lesandinn verður að vita hvar og hvenær hann á að halda aftur af
ímyndunaraflinu, og það gerir hann með því að gera sér glögga grein fyrir
þeim sérstaka heimi sem höfundurinn fær honum til umráða. Við verðum
að sjá og heyra hlutina, við verðum að sjá fyrir okkur herbergin, fötin,
hegðun fólksins sem höfundurinn býr til. Það skiptir máli hvernig augu
Fanny Price í Mansfield Park eru á litinn og hvernig litla, kalda herbergið
hennar er búið húsgögnum.
Við erum öll hvert öðru ólík að skapferli, og ég get sagt ykkur hér og nú
að heppilegast skapferli fyrir lesanda er samtvinnun þess listræna og þess
vísindalega. Einn sér hneigist hinn ákafi listamaður til að vera alltof hug-
lægur í viðhorfi sínu til bókar, og því getur köld skynsemi vísindamannsins
orðið til að tempra ofurhita innsæisins. En sé lesandinn sneyddur ástríðu og
þolinmæði — ástríðu listamannsins og þolinmæði vísindamannsins — er
hann tæplega fær um að njóta góðra bókmennta.
Bókrnenntirnar fæddust ekki daginn sem drengur kom hlaupandi út úr
skóginum í Neandersdal og æpti úlfur úlfur, og var með stóran, gráan úlf á
507