Tímarit Máls og menningar - 01.11.1983, Blaðsíða 22
Gudbergur Bergsson
Um þýðingar
Allir menn eru þýðendur. Lífið er í víðri merkingu þýðingarstarf. Við erum
stöðugt að þýða hugarheim okkar og umhverfi, bæði fyrir okkur sjálf og
aðra. Gjörvallt lífið erum við að breyta eðli og útliti hlutanna eða færa hvort
tveggja óbreytt komandi kynslóðum. Hamingja okkar eða lífsgæðin eru að
miklu leyti undir því komin hvað við erum slyngir þýðendur.
Sá sem les stafina hérna á blaðinu er að lesa þýðingu mína á þeim
hugmyndum sem ég hef reynt að gera mér um eðli þýðinga. Ur því ég hef
skráð hugmyndir færðar í orð er auðsætt að ég hef talið að hugleiðingar
mínar gætu haft einhverja þýðingu fyrir aðra.
Meðan ég er að reyna að færa hugsun mína í búning stafa og orðtákna
eruð þið að reyna að þýða eða túlka það sem ég segi. Þið reynið vonandi að
draga einhverja merkingu af orðum mínum. Niðurstaðan fer eftir því hvort
mér hafi tekist að þýða sæmilega hugmyndir mínar og hvort þið kunnið að
láta þær hafa einhverja þýðingu fyrir ykkur. Ekki er við mig einan að sakast
ef árangurinn verður lítill eða enginn. Arangurinn er einnig á valdi ykkar,
kominn undir getu ykkar við þýðingarstarfið.
Líklega skiljum við aldrei neitt fullkomnum skilningi, en við segjum
gjarna og óeðlilega oft: Eg skil þetta fullkomlega. Mörg orð og setningar
liggja okkur á tungu, umhugsunarlaust, og við reynum ekki að þýða
merkingu þeirra. Setningarnar eru sjálfsagðar og orðtamar, uns einhver
hugsuður rýfur hefðina og við rekum upp reiðióp. Hann hefur komið með
nýja þýðingu. Og nýjar þýðingar eru lengi að öðlast sess í huga okkar.
Meðan ég tala þykist ég vita hvað ég er að segja, en veit það ekki
fullkomlega. Enginn getur gert hvort tveggja í senn, talað og hugsað. Þegar
við tölum fleytum við ofan af hugsuninni, hugsun sem ríkti andartaki áður
en hún breyttist í orð.
Sá skilningur sem við leggjum sjálf í hluti og hugtök er helsta viðmiðun
okkar, eigin skilningur. En leitum við álits hjá öðrum um sama hlutinn
kemur tíðum í ljós að skilningur hans er ólíkur. Þetta fer þó örlítið eftir
hvers eðlis hluturinn er eða málið.
Ef um reikningsdæmi er að ræða er auðvelt að tala um réttan eða rangan
492