Tímarit Máls og menningar - 01.11.1983, Blaðsíða 13
Ólánsmerkið
Það er beygur í mömmu við pollinn. Þangað sótti hún sjálf svo
skelfing mikið þegar hún var stelpa. Hún man eftir svörtu augunum í
honum og hvernig þau störðu á hana, seiðmögnuð og ógnandi. Það
kom fyrir að hún gat ekki að sér gert, en lagðist niður á dúandi
bakkann svo hún gæti betur horft í gegnum augun, ef ske kynni að
eitthvað væri fyrir neðan. Aldrei sá hún þó neitt nema sortann.
Stundum kom yfir hana sterk löngun til að reka fótinn niður í falskan
botninn og vita hvort ekki kæmi stærra gat, svo hún gæti séð betur.
Hún sat þó á sér, því hún hræddist að eitthvað kynni að vera niðri í
hyldýpinu undir, sem gripi í fótinn og drægi hana til sín.
Það fór hrollur um mömmu. Það væri hræðilegt ef drengnum
hennar dytti í hug að fara niður að Lómapolli. Þessvegna sagði hún á
hverjum morgni: „Þú mátt ekkert fara frá,“ og lagði áherslu á orðin.
Þó nefndi hún hættuna aldrei með nafni, því það eitt gat vakið
löngun hjá drengnum.
Litli glókollurinn var kominn í essið sitt. Hlátrar hans urðu að
freistingu í hjarta mömmu, svo hún gleymdi snöggvast sjálfri sér og
eldhúsinu og öllu sem beið hennar og fór að slíta upp fífla. Leggirnir
voru langir og þroskaðir og festarnar urðu stórar hjá henni. Drengur-
inn fékk þá fyrstu og brúðan í kassanum aðra. Mæðginin hlógu dátt
að ljúfunni; þó hálsinn á henni væri digur, náði festin langt fram yfir
fætur.
Mamma gleymir sér aldrei lengi, þessvegna ætlar hún inn eftir
leikinn, en þá vildi drengurinn ekki missa hana. Bráðum kæmi
slátturinn og þá yrði enginn tími fyrir hana til að leika, — hugsaði
mamma og lét það eftir þeim báðum að vera ofurlítið lengur.
Fallega glerkúlan með rauðu og gulu röndunum innan í, lá upp við
vegginn, hún hafði oltið þangað þegar drengurinn hellti gullunum úr
kassanum. Mamma ætlaði að velta henni til hans, en þegar hún
beygði sig niður, rak hún augun í dálítið. „Nei sjáðu þetta,“ kallaði
hún og benti á holu í veggnum. Drengurinn kom og sá eitthvað glitra
í sólinni. „Þarna sérðu stóran og fallegan kóngulóarvef, líttu á hvar
hún situr sjálf og bíður.“ Og í miðjum vefnum sá drengurinn
kóngulóna og margar lappir sem héldu sér fastar.
Mamma fór að segja drengnum sögur af því hvernig kóngulóin
veiddi flugurnar. Sú var nú frá á fæti þegar eitthvað festist í vefnum.
Stundum komst hún ekki yfir að éta allt, þá beit hún flugurnar til
483