Tímarit Máls og menningar - 01.11.1983, Blaðsíða 41
Samad Behrangi
Sólarhringur í draumi og vöku
„Kæri lesandi,
Eg skrifaði þessa smásögu ekki til þess að þú
breyttir eftir henni. Tilgangur minn er sá, að þú
kynnist betur börnum þíns eigin lands svo þú
megir finna lausn á þjáningum þeirra.“
Samad Behrangi.
Ef ég ætti að segja frá öllu, sem gerðist á meðan ég var í Teheran,
myndi það fylla margar bækur. Það yrði jafnvel leiðinlegt. Þess vegna
ætla ég aðeins að segja frá síðasta sólarhringnum, sem mér fannst alls
ekki leiðinlegur. En fyrst verð ég að segja frá því hvers vegna við
pabbi komum til Teheran.
Pabbi hafði verið atvinnulaus í marga mánuði, þegar hann ákvað
loks að skilja mömmu, systur mína og bræður eftir í heimaborg
okkar, og taka mig með sér til Teheran. Margir vina okkar voru þar
fyrir og höfðu fengið atvinnu. Einn seldi ís, annar seldi gömul föt og
sá þriðji seldi appelsínur. Pabbi hafði komist yfir handvagn og
gerðist grænmetissali. Hann ferðaðist um með lauk, kartöflur, agúrk-
ur og annað grænmeti. Við fengum okkur smá bita af því á hverjum
degi °g sendum annað eins til mömmu. Ég var stundum í fylgd með
pabba, en oftast var ég að selja tyggigúmmí og annað ámóta.
En snúum okkur þá að efninu:
Fyrir framan bankann þetta kvöld vorum við Ghassem, sonur
Zivar happdrættismiðasölukonu, Ahmad-Hossein og ég, auk tveggja
annarra, sem höfðu slegist í hópinn einni klukkustund fyrr.
Við sátum á þrepunum og veltum því fyrir okkur hvert við gætum
farið í teningaspil, þegar hinir tveir komu og settust hjá okkur. Þeir
voru stærri en við. Annar þeirra var eineygður og hinn var í
splunkunýjum svörtum skóm, en það skein í skítugt hörundið í
gegnum gat á buxunum hans. Hann var enn aumkunarverðari en við í
útliti.
511
L