Tímarit Máls og menningar - 01.11.1983, Síða 94
Gudbergur Bergsson
í haustsólinni
Nú skín þú, dýrlega haustsól, í tæru ljósi
lík gleri, eftir allt regnið í sumar og vor,
þegar þú finnur feigð þína nálgast,
á síðustu stund áður en skammdegið hefst.
Væri þér ekki nær að ljóma, von þessa lands,
þegar þér ber að skína: á sumrin og ylja grösum,
túnum og huga manna og auka vöxt jarðargróðurs
í stað þess að kveðja í síðbúinni fegurð?
Þú ert sem logi í þér sjálfri, eiginn bruni
eins og skáldandinn í víðáttu sinni,
þrátt fyrir ský og regn
í þeim bláa garði sem himinninn er,
máttug og sáir vonum,
sól mín. Skín þú þegar þér hentar best: á vetri eða um haust,
vonirnar vaka þá allt vorið og sumarið,
fram á haust, eftir að þú ættir að hafa fullnægt þeim
með skini þínu.
Brátt deyr jörðin og þú rennur um sjávarbrún,
lágt og hvíslandi líf þitt
bregður hönd á glugga og svæfir garða, jörð og fjöll
en svellin vakna.
Dýr og börn bíða þín til eilífðar og við líka þótt þú kæmir
aldrei til þessa lands. Við varðveitum þig í skammdegi okkar.