Tímarit Máls og menningar - 01.02.1986, Side 42
Tímarit Máls og menningar
áranna um leið og hann gleymdi aldrei draumnum sem hann hafði átt sem
stríðsfangi, um að snúa aftur til nýs og betra Þýskalands. I þessari andstöðu
samfara tragískri heimþrá er styrkur verka hans fólginn.
Heinrich Böll var ekki heimspekingur á við Thomas Mann, ekki jafn
skarpur hugmyndarýnir og Bertolt Brecht, ekki jafn mikilhæfur nútímahöf-
undur og Gunter Grass. Hann var öllu öðru fremur sögumadur, og sagan
sem hann sagði fjallaði um fórnarlömb grimmdarlegs stríðs eða lymsku-
legrar kúgunar, sem ekki gátu fundið sér fótfestu í Þýskalandi samtímans.
Um leið bjó í sögunni draumur um annað Þýskaland, Þýskaland fórnarl-
ambanna, heimkynni Jóhönnu gömlu í Billard um halbzehn, hinnar hrein-
lyndu Katarínu í Glötuð œra Katarínu Blúm, stríðsfórnarlambanna í Og
sagði ekki eitt einasta orð (sem birst hefur í íslenskri þýðingu). Það er of
mikil einföldun að segja að Böll hafi alltaf sýnt samstöðu með „litla
manninum“, nær að orða það sem svo að samúð hans hafi jafnan verið með
fórnarlömbunum. Jákvæðu persónurnar í sögum hans, „sauðirnir", eru
undantekningarlítið fórnarlömb „hafranna", þeirra sem tekist hefur að
koma sér áfram, í krafti siðleysis síns og sögulegrar „gleymsku“. Rauði
þráðurinn í skáldverkum Bölls er sá sami og gengur í gegnum pólitísk
afskipti hans.
Skáldsagnahöfundar realismans glíma einatt við lýsingu persóna og
samfélags, skapgerð persónu lýsir sér í því hvernig hún bregst við umhverfi
sínu. Böll hefur stundum verið sakaður um einfalda persónusköpun, og
bent á að persónur hans þróuðust of lítið. Og vissulega er það rétt, að
persónur hans skiptast oft einfaldlega í góðar og vondar manneskjur.
Prófsteinn Bölls var sá, hvort viðkomandi persóna lifði í sjálfumglaðri sátt
við sjálfa sig og umhverfi sitt, taldi sig eiga heima í því Þýskalandi
eftirstríðsáranna sem iðulega er sögusvið hans. Góðar persónur í sögum
hans eru yfirleitt heimilislausar í þessari merkingu, rétt eins og höfundur
þeirra. Og það fyllti Böll bæði sorg og beiskju, að svo skyldi vera fyrir
Þýskalandi komið. Þar með er ekki átt við að verk hans séu öll raunamædd
og laus við kímni — þvert á móti. En gamansemi hans var gamansemi
trúðsins, sem gerir háttalag hversdagsins gráthlægilegt með eftirhermum
sínum grafalvarlegur á svip. Sorg Bölls — því hvað er maðurinn án sorgar,
eins og segir í einu verka hans — var harmur hans yfir örlögum Þýskalands,
og kannski einmitt þess vegna er Irsk dagbók hlýlegasta, ljóðrænasta og
beiskjulausasta verk hans. Engu að síður var andóf Bölls við tilfinningunni
um að eiga ekki heima í heimalandi sínu, alltaf andóf, ekki uppgjöf. Og allt
vildi hann gera til að koma í veg fyrir að menn yrðu útlagar úr
samfélaginu, sbr. fræga grein hans í Spiegel árið 1972, þar sem hann hvatti til
þess að Ulriku Meinhof yrði veitt uppgjöf saka, svo hún gæti snúið aftur til
32