Tímarit Máls og menningar - 01.11.1987, Page 74
Tímarit Máls og menningar
frá dauðum", Mikhaíl Búlgakov skrifaði sögu sína á fjórða áratugnum og
hafði þá verið dæmdur til að þegja og þrauka sem bókmenntaráðunautur
við Listaleikhúsið í Moskvu um margra ára skeið. Hann lést árið 1940.
Þessi saga gerist á mörgum hæðum ef svo mætti segja. Djöfullinn og árar
hans koma til Moskvu og gera þar marga skráveifu — en eingöngu þeim
sem ekkert gott eiga skilið, þeir afhjúpa mútuþega, leigupenna, rógbera og
forréttindahyski og refsa þessu liði með grimmum og einatt spaugilegum
göldrum. En þetta hrekkjaglaða lið gerir fleira en að freista þeirra sem
fjandinn telur sér vísa. Djöfsi, sem hér ber kápu Wolands nokkurs, „sér-
fræðings í svartagaldri" er einnig til Moskvu kominn til að leggja lið ástinni
og listinni, Meistaranum sem hefur skrifað sögu sem bókmenntamenn í náð
valdsins hafa hakkað í sig og hrakið hann sjálfan á geðveikrahæli, og
Margarítu sem elskar hann og vill bjarga honum og dýrmætu handriti hans
frá glötun. Inn í þennan vef er svo fléttað sögunni sem Meistarinn hefur
skrifað, og Woland vottar að sé sannleikanum samkvæm — en hún er um
Jesúm og Pílatus og er einskonar dæmisaga af von rithöfundar um réttlæti á
myrkum tímum. Pílatus verður tákn þess hugleysis sem Búlgakov leggur
sig fram um að lýsa hinn versta löst — hann þorir ekki annað en senda
fanga sinn á krossinn þegar Jesús játar trú sína á framtíðarríki sannleikans
þar sem keisarar (eða þá einræðisherrar okkar aldar) hafa ekki lengur vald
yfir mönnum. En Jesús, eða Jesúa eins og hann heitir hér, verður tákn og
ímynd þeirra manna sem eru trúir sínum sannleika og hika ekki við að láta
lífið fyrir hann — og tryggja málstað sínum langlífi með fórn sinni.
Hér er fátt eitt sagt af þessu sérstæða skáldverki. Hitt er víst að sovéskir
lesendur (sem reyndar fengu ekki að lesa söguna nema með úrfellingum)
áttu ekki að venjast jafn djarflegri samþættingu hugarflugs, ádrepu og
grimmrar gamansemi og hér var boðið upp á. Þeir hlutu að furða sig á
hinni áhrifaríku víxlverkan ljóðrænu, hrollvekju og prakkaraskapar, og svo
því, hvernig píslarsagan er höfð til að hnykkja á spurningum um gott og illt
í sögu og samtíð. Fordæmi Búlgakovs hefur að líkindum dregið nokkuð úr
raunsæisátrúnaði í sovéskum bókmenntum — en þá fyrst og fremst meðal
Samízdathöfunda, sem síðar meir hröktust í útlegð sumir hverjir. Er þá
ekki úr vegi að nefna til dæmis Vladímír Vojnovitsj, sem árið 1974 birti (er-
lendis) söguna „Líf og óvænt ævintýri hermannsins Ivans Tsjonkíns",
óbreytts hermanns og reyndar mesta sakleysingja, sem snýr á „kerfið“ og
útsendara þess með aðferðum sem helst minna á annan góðan dáta, Sjveik
þann sem tékkneski rithöfundurinn Jaroslav Hasek bjó til, sællar minning-
ar.
464