Tímarit Máls og menningar - 01.11.1987, Side 85
Hláka, frosthörkur, endurskoðun
andúð á listrænum öfgum og tilgerð. Það er líklega út í hött að spyrja,
hvort þeir sem nú skrifa séu verðugir eftirmenn þeirra mikilmenna sem
áður voru nefndir. Hitt skiptir mestu, að enginn þarf að skammast sín fyrir
höfunda á borð við Raspútín og Ajtmatov, Trífonov og Shúkshín. Þeir hafa
skilað miklu starfi og merkilegu.
Þótt undarlegt megi virðast er það ritskoðunin og hin pólitíska afskipta-
semi af lífi bókmenntanna sem tryggir rithöfundum meiri áhrif í Sovét-
ríkjunum en þeir gætu haft þar sem málfrelsi er óheft. Það getur að vísu
gerst í ritskoðunarþjóðfélagi, að eftirlitið með rituðu máli sé svo strangt og
smásmugulegt, að við liggi að bókmenntirnar kafni úr súrefnisskorti. En
þegar ritskoðunarvaldið er á faralds fæti, þegar breytingaskeið ganga yfir,
þá verður baráttan fyrir rýmra málfrelsi, sem setur hvern rithöfund sem
sjálfsvirðingu hefur niður á landamerkjum hins leyfilega og bannaða, til
þess að auka vægi bókmenntanna. Efla áhuga á þeim. Skerpa hæfni lesenda
til að lesa milli lína, draga sínar ályktanir.
A þessum misserum eru að verða miklar breytingar í Sovétríkjunum og
sú „bylting að ofan“ er oftast skrifuð á reikning nýrrar pólitískrar forystu í
landinu — eins og vonlegt er. Sem betur fer hafa bókmenntirnar haft sitt að
segja um þá þróun, ýmsir hinna fremstu höfunda höfðu riðið á vaðið með
mikilvæg mál og spurningar áður en Gorbatsjov fór að boða fagnaðar-
erindið kennt við glasnost. Og það er þessa mánuði verið að prenta verk
sem áður gátu ekki komið út — Sálumessu Onnu Akhmatovu, samyrkju-
skáldsögu Andreis Platonovs, brátt kemur Doktor Zhivago út í heimalandi
Pasternaks. Og þeir höfundar sem nú lifa hafa vitanlega fengið meira svig-
rúm, meira málfrelsi. Allt eru þetta góð tíðindi. Og þótt margt sé á huldu
um framvindu mála hefur svo margt gerst, að næsta ólíklegt er að þeirri
þróun verði við snúið sem steig sín fyrstu feimnislegu skref í „hlákunni"
fyrstu fyrir röskum þrjátíu árum.
475