Tímarit Máls og menningar - 01.11.1987, Page 92
Tímarit Máls og menningar
Shúrygín lét þetta sem vind um eyru þjóta. Sama einbeitnin í
svipnum, sama ósveigjanlega harkan í augnaráðinu. Konu Shúr-
ygíns, Klönku, var ýtt til hans út úr hópnum. Klanka gekk hikandi í
átt til hans — hún sá að eitthvað óskiljanlegt hafði komið yfir mann-
inn hennar.
— Kolja minn, til hvers ætlarðu að brjóta hana?
— Burt með þig! skipaði Shúrygín. Skiptu þér ekki af þessu!
Menn gengu til dráttarvélastjóranna til að tefja fyrir þeim þó ekki
væri annað, meðan hringt væri í héraðsráðið og hlaupið eftir kenn-
aranum. En Shúrygín hafði stungið flösku að hverjum dráttarvélar-
stjóra og lofað þeim viðurkenningarskjali fyrir „unnið starf“.
Kennarinn kom hlaupandi, ungur maður og vel liðinn í þorpinu.
— Hættið strax! Hver gaf skipunina? Hún er frá sautjándu öld!
— Skiptið yður ekki af því sem yður kemur ekki við, sagði Shúr-
ygín.
— Þetta kemur mér við! Þetta kemur okkur öllum við! Kennar-
inn var æstur og fann því engin orð sem væru nógu sterk og sann-
færandi, roðnaði bara og æpti upp: Þér hafið engan rétt! Villimaður!
Eg skal skrifa bréf!
Shúrygín veifaði til dráttarvélastjóranna . . .Vélarnar rumdu. Það
strekktist á trossunum. Mannfjöldinn gaf frá sér lága skelfingar-
stunu. Kennarinn tók allt í einu á rás, hljóp að kirkjunni og stillti sér
upp við einn vegginn. Dráttarvélarnar staðnæmdust.
— Farðu frá! öskraði Shúrygín. Æðarnar á hálsi hans þrútnuðu.
— Þú dirfist ekki að snerta kirkjuna! Þú dirfist ekki!
Shúrygín hljóp til kennarans, greip hann í bóndabeygju og bar
hann burt frá kirkjunni. Kveifarlegur kennarinn braust um á hæl og
hnakka en Shúrygín var handsterkur.
— Af stað! æpti hann til dráttarvélastjóranna.
— Farið öll upp að veggnum! hrópaði kennarinn til hópsins.
Stillið ykkur upp! Þeir þora ekki! Eg tala við héraðsráðið, honum
verður bannað þetta!
— Svona, af stað nú! öskraði Shúrygín á dráttarvélastjórana.
Þeir smeygðu sér inn í stjórnklefana og gripu um gírstengurnar.
— Stillið ykkur upp við vegginn! Ollsömul!
En enginn hreyfði sig úr stað. Hamsleysi Shúrygíns lamaði alla.
Allir þögðu. Biðu.
482