Tímarit Máls og menningar - 01.03.1999, Blaðsíða 76
HELGIINGÓLFSSON
um hönd og vatt sér aftur að almúgamanninum. „Skeyti þín eru
hvöss, steinsmiður. Þau stinga.“
„Ég veit,“ svaraði Sókrates glaðbeittur. „Þeir segja það líka, vinnu-
félagarnir. Eins og broddfluga, segja þeir.“
„Slík óskammfeilni gæti komið þér í koll.“ Herstjórinn var myrkur á
svip. „Fyrr eða síðar.“
„Vonandi síðar.“ Ekkert dró úr hortugheitum Sókratesar. „Ég á enn
eftir að lifa lífinu.“
Parmenídes hafði augljóslega gaman af þessum berorða alþýðu-
manni. Lífsþreyta hans var rokin út í veður og vind, nú iðaði hann eins
og unglingur sem nýlega hefur fengið hvolpavitið. „Það sem þú sagðir
áðan,“ sagði hann, „hljómaði eins og þú hafir ekki mikið álit á hernaði,
ungi maður. Skildi ég þig rétt?“
„Hernaður er heimska,“ svaraði Sókrates af hjartans sannfæringu.
„Þeir sem dvelja öruggir í skjóli öflugs hers sjá stríð ef til vill í
dýrðarljóma. En sá sem stendur í fremstu víglínu skynjar í augum
andstæðingsins sama óttann og hann sjálfur ber í brjósti, og neyðist
samt til að leggja til hans með vopni til að gera skyldu sína ...“
„Hvílík ekkisens fjarstæða,“ greip Períkles fram í og hló þurrum
hlátri. „Svona tala bara lyddur. Allir vita hvílíks frægðarorðs hugrekki
á vígvellinum getur aflað. Sjáðu bara hinar fornu hetjur. Agamemnon,
Akkilles, Ajant...“
„ ... og enginn þeirra var gæfumaður,“ botnaði Sókrates setning-
una. „Agamemnon myrtur af eiginkonu sinni við heimkomuna, Akk-
illes féll vegna þess að hann taldi sig ósæranlegan, Ajant svipti sig lífi af
geggjun. Þannig leikur stríðið menn. Fargar hamingjusömu heimilis-
lífi, fyllir menn drambi, firrir menn viti.“
Parmenídes japlaði og skellti í góm. „En þú óttaðist í orrustunni?“
„Að sjálfsögðu.“ Sókrates leit forvitnilega á blindingjann. „Við slík-
ar kringumstæður óttast allir.“
„Dauðann?“
Sókrates strauk höndum yfir þykkar varirnar eitt stundarkorn og
hugsaði sig um. „Nei, ekki endilega dauðann. Frekar heimsku þeirra
sem etja venjulegum mönnum út í opinn dauðann, þegar þeir gætu
sáttir búið í samlyndi.“
„En þú barðist samt?“
„Að sjálfsögðu. Mönnum ber að gera skyldu sína.“
66
www.mm.is
TMM 1999:1