Tímarit Máls og menningar - 01.09.1999, Page 19
TILBRIGÐl VIÐ FORTÍÐ
Osturinn ogormarnir talin marka upphaf ítalska skólans í einsögufræðum.11
í því riti varpar Ginzburg ljósi á heimsmynd malarans Menoccios og sýnir
um leið hvernig hún mótast af orðræðu alþýðumenningarinnar en stangast
á við orðræðu millistéttarinnar sem og hina opinberu orðræðu stjórnkerfis-
ins. Helstu heimildir sem Ginzburg nýtti sér við rannsóknina voru réttar-
skjöl sem eðli sínu samkvæmt eru ekki aðeins heimild um orðræðu
stjórnkerfisins heldur einnig orðræðu þess sem yfirheyrir (millistéttar) og
orðræðu þess sem er yfirheyrður (alþýðu). Ginzburg segir í inngangi að
enskri útgáfu bókarinnar að það hafi einkum verið kenningar bókmennta-
fræðingsins Míkhaíl Bakhtíns sem opnuðu augu hans fyrir því að orðræður
ólíkra hópa innan samfélagsins stönguðust ekki aðeins á heldur hefðu jafn-
framt áhrif á hvor aðra.12 Þetta viðhorf stangast á við ríkjandi sjónarmið
breskra og bandarískra sagnfræðinga. í bókinni ThePopular Culture in Early
Modern Europe færir breski sagnfræðingurinn Peter Burke til að mynda rök
fyrir því að með auknum áhuga millistéttarinnar á alþýðumenningu undir
lok átjándu aldar hafi menning alþýðunnar farið að hafa áhrif á menningu
og lífsviðhorf millistéttarinnar.13 Burke telur að fram að þeim tíma hafi
menningarstreymið verið einhliða, það er frá hástétt til lágstéttar. í bókinni
um „ostinn og ormana“ sýnir Ginzburg fram á að svo hafi ekki verið heldur
hafi fremur verið um hringrás að ræða milli ólíkra orðræðuhefða í því sam-
félagi sem hann tekur til athugunar.
En það er fleira en hugmyndin um hringrás menningarinnar sem ein-
sögufræðingar sækja til Bakthíns. f grein um forsögu og forsendur skáldsög-
unnar sýnir Bakthín fram á hvernig unnt er að brjóta upp form, hvort sem er
form tungumáls, bókmenntagreinar eða menningar, með því að skopstæla
það.14 Það sama á við um sögupersónur sem skapaðar eru innan ákveðins
samhengis. Með því að rífa sögupersónur úr því samhengi sem þeim var ætl-
að að þjóna og koma þeim fýrir innan sviðs þar sem þær stangast á við sam-
hengi hlutanna er verið að draga fram hvernig sú orðræða sem persónan
endurspeglar lýtur aðeins að því samhengi sem hún er sprottin úr um leið og
ljósi er varpað á víðari skírskotun hennar. Með því að beita þessari aðferð
verður bókmenntafræðingurinn meðvitaður um þær ólíku orðræðuhefðir
sem takast á innan ákveðins skáldverks um leið og hann uppgvötar eiginleika
hverrar orðræðu fyrir sig. Svipað er verk sagnfræðingsins sem nýtir sér yfir-
heyrslu menntamanna yfir alþýðumanni á sextándu öld. Heimildirnar, þ.e.
réttarskjölin, hafa rifið alþýðumanninn úr sínu vanalega umhverfi og stillt
honum upp fýrir framan menntamenn sem koma úr öðru menningarum-
hverfi en alþýðumaðurinn og tala því annað mál. í réttarsalnum takast á
ólíkar orðræðuhefðir og ólíkir menningarheimar sem þegar betur er að gáð
eiga þó ýmislegt sameiginlegt og það sameiginlega opinberast sagnfræð-
TMM 1999:3
www.mm.is
17