Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2004, Síða 22
Til að stuðla að sem hagkvæmustum vaxtarskilyrðum fyrir iðnaðinn
stofnaði stjórnin verslunarráð, „Kommercekollegium“, árið 1735 og
skömmu síðar, á árunum 1737–1738, „Generalmagasinet“, en hlutverk
þess var einkum að útvega textílframleiðendum hráefni og sjá um að þeir
hefðu kaupendur að framleiðsluvöru sinni.50 Vöruskoðun, svonefndri
„klædehalle“, var komið á fót árið 1739 en þar voru klæði skoðuð og
gæðin metin.51 Hár tollur var lagður á innfluttan textílvarning, sem var í
samkeppni við þann innlenda, og síðar var sett á hreint innflutningsbann.
Samkeppni við erlenda framleiðendur var hörð, innflutningsbann dugði
ekki sem skyldi til verndar danska iðnaðinum, vörusmygl blómstraði. Svo
rammt kvað að smyglinu að stjórnin fór þess á leit að prestar landsins
áminntu landsmenn við guðsþjónustur að láta af þessum ósið sem sagður
var refsiverður jafnt í augum Guðs sem kóngsins.52
Um 1730, þegar stjórnin hóf átak til eflingar textíliðnaði, voru ekki
vefsmiðjur í Kaupmannahöfn utan þær sem starfræktar voru á vegum
stjórnarinnar. Árið 1786 voru starfandi í Kaupmannahöfn og nágrenni
28 vefsmiðjur sem framleiddu klæði. Tauvefsmiðjur voru þá 18 talsins.
Einnig höfðu verið stofnsett fyrirtæki sem framleiddu vörur úr bómull
og silki.53
Klæða- og taugerðin í Danmörku gekk þó treglega. Erlendir fagmenn,
sem fengnir höfðu verið til að koma Dönum á skrið með ullariðnaðinn,
voru óánægðir, þeim sýndist skipan mála í danska ullariðnaðinum ótrygg
og kjör erfið.Vinnuafl var óstöðugt og hægt gekk að bæta verklag fólks að
því marki að það stæðist kröfur sem gerðar voru í fullgildum iðnaði. Þó
að stjórnin héldi formlega fast við þá stefnu að nota bæri einungis garn,
sem framleitt væri innanlands, sá hún sér ekki annað fært en verða við
beiðni verksmiðjueigenda um að fá að flytja inn garn.54
Á seinni hluta 18. aldar hófst tímabil stjórnarfarslegra og félagslegra
umbreytinga í Evrópu. Í iðnaði komu fram ýmsar nýjungar í tækni, meðal
annars í textíliðnaði.
Tímaskeið gömlu verktækninnar í ullariðnaði, sem hafði verið þróuð í
tímans rás og var beitt af mikilli kunnáttu í tilteknum löndum í Evrópu á
18. öld, einkum á Englandi og einnig í Frakklandi, var að líða undir lok.
Danir hófu klæða- og tauiðnað þegar margra alda gömul verktækni var
að renna sitt síðasta skeið. Ef danskri alþýðu, sem hafði þó einhverja
kunnáttu og reynslu í meðferð spunarokka og vefstóla, hefur gengið hægt
að tileinka sér nákvæm vinnubrögð og fjölþætt ferli iðnaðarframleiðslu á
klæði og taui, hvers var þá að vænta af íslenskri alþýðu?
KALEMANK OG KLÆDI 21