Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2004, Qupperneq 23
Einkenni íslensku ullarvinnunnar um það leyti
sem Innréttingarnar voru settar á laggirnar
Nýjungar í textíltækni bárust seint til Íslands. Allt frá landnámsöld og
fram á 16. öld, til þess tíma þegar Íslendingar lærðu að prjóna, virðast
áhöld til ullarvinnu hafa verið lítið breytt. Ef ullin var á annað borð
kembd voru notaðir til þess langtenntir kambar, garn var spunnið með
halasnældu og ofið var í kljásteinavefstað.55 Í byrjun 18. aldar unnu lands-
menn að mestu leyti sjálfir úr ullinni, einkum prjónles en einnig vaðmál,
önnur ull fór til kaupmanna einokunarverslunarinnar. Landsmenn þóttu
lítið hirðusamir um ullina og kaupmenn höfðu ýmislegt við hana að at-
huga og sögðu landsmönnum ítarlega til um meðferð og flokkun ullar
svo að hún gengi út. Samkvæmt leiðbeiningum þeirra skyldi skipta ull-
inni í tvo aðalflokka, gilda og ógilda ull. Ull af tvævetrum sauðum eða
eldri, rúnum á réttum tíma, vel hreinsuð, þvegin, þurrkuð og aðgreind
eftir lit, skyldi talin gild. Ógilda skyldi telja ull af veturgömlu fé og ullar-
reifi af sjálfdauðu, ull af gærum, flóka, tog og ull sem notuð hafði verið í
rúmum til að liggja á. Segir í riti Jóns J.Aðils um einokunarverslunina að
síst hafi verið furða „þó að kaupmönnum væri ekki mikið gefið um slík-
an varning“.56
Um sérkenni og eðliskosti íslensku ullarinnar kemur hins vegar margt
fram í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Þar segir:
Togið líkist mjög ull af úlföldum. Í Kaupmannahöfn hafa menn
gert mislita hnappa og knjábönd úr togi, og hafa þeir, sem skyn-
bragð bera á slíkt, ekki þekkt það frá sams konar hlutum, sem
gerðir voru af úlfaldahári. Þelið er mjúkt og fíngert, þegar togið
er skilið frá því. Það er að verulegu leyti betra en sjálenzk ull.
Verksmiðjueigendur þeir, sem árlega kaupa íslenzku ullina af
Verzlunarfélaginu fyrir lágt verð, hafa vitað þetta lengi, en haldið
því leyndu. Hvort kaupmennirnir hafa séð sinn hag í því, að ull-
in var talin vond, látum við liggja milli hluta.57
Í riti sem sennilega var skrifað á fjórða áratug 18. aldar af norskum manni,
sem ferðaðist um landið á árunum 1729–1731, Mathias Jochumssen
Vagel, segir að tækni til ullarvinnu á Íslandi sé að vísu frumstæð en jafn-
framt er minnst á eðliskosti íslensku ullarinnar. Jochumssen segir að lærðu
Íslendingar að hirða og flokka íslensku ullina, yki það verðmæti prjón-
lessins að miklum mun. Hann minnist ennfremur á íslenska vaðmálið og
22 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS