Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2004, Page 50
ÞÓR MAGNÚSSON
„VANDALISMINN“ Í BESSASTAÐAKIRKJU
eða
VÍTI TIL VARNAÐAR
Bessastaðakirkja á Álftanesi er eitt elzta hús hér á landi, reist úr steini á
18. öld, þó ekki fullbúin fyrr en 1823. Er hún eitt þeirra húsa, sem
danska stjórnin ákvað að skyldu byggð og standa þau flest enn, sjö talsins,
þó er ekkert þeirra óbreytt. Öllum var þeim breytt að mun á fyrri tíð frá
upphaflegri gerð, og reyndar hafa menn verið að breyta sumum þeirra
allt fram á síðari ár, þótt nokkur þessara húsa hafi verið færð til eldri
vegar eða nær upphaflegum búningi eftir mætti á síðari árum.
Bessastaðakirkja er nú gerólík hið innra því sem upphaflega var.
Var fjarlægt úr henni mestallt af hinum gamla búnaði á árunum eftir
seinna stríð þegar Bessastaðir voru orðnir forsetasetur, og kirkjunni þá í
reynd algerlega umturnað. – Hér er ætlunin að segja nokkuð frá þessari
breytingasögu, sem er í reynd ömurleg harmsaga og bæði hefur verið
kölluð „óþurftarverk“ og „vandalismi“. Þetta var reyndar ótrúleg með-
ferð á opinberri byggingu á þeim tímum er menn voru farnir að fá til-
finningu fyrir slíkum þjóðminjum sem Bessastaðakirkja var. Er það því
ömurlegra sem Bessastaðakirkja var þá enn hið eina þessara húsa, sem var
að kalla óbreytt hið innra frá upphafi.
Þess hefur orðið vart í seinni tíð, að sumir telja að breytingarnar á
kirkjunni væru gerðar að undirlagi eða að minnsta kosti með fullu sam-
þykki þjóðminjavarðar á þeim tíma. En vitað er að þjóðminjavörður
hafði einmitt unnið af þrautseigju að vernd og viðgerð kirkjunnar fyrr á
árum í hinni gömlu og virðulegu gerð hennar, og lagðist fast gegn þessum
breytingum á henni, en önnur öfl réðu sem kusu heldur nýjabrum þess
tíma en ráð og umsjá sérfróðs yfirmanns íslenzkrar þjóðminjavörzlu.