Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2004, Page 80
GARÐAR GUÐMUNDSSON, MJÖLL SNÆSDÓTTIR,
IAN SIMPSON, MARGRÉT HALLSDÓTTIR, MAGNÚS Á.
SIGURGEIRSSON OG KOLBEINN ÁRNASON
FORNIR AKRAR Á ÍSLANDI
Meintar minjar um kornrækt á fyrri öldum
Kunnugt er af fornbréfum og ýmsum ritheimildum að kornrækt þekktist
á Íslandi til forna, en er talin hafa lagst af á fimmtándu öld. Einnig er
fjöldi örnefna víða um land sem bendir eða virðist benda til akuryrkju.
Fræðimenn hafa fjallað nokkuð um akuryrkju á Íslandi og má þar nefna
rannsóknir þeirra Björns M. Ólsen1, Sigurðar Þórarinssonar2, Steindórs
Steindórssonar3, Þorleifs Einarssonar4 og Margrétar Hallsdóttur5.Vitneskja
er þó af skornum skammti um þennan þátt í atvinnuháttum Íslendinga
fyrr á öldum, ekki er ljóst hve víðtæk akuryrkjan var og nákvæma
vitneskju skortir um hvenær hún lagðist af og ástæður þess.
Á allmörgum stöðum á landinu eru þekktar minjar sem taldar eru
fornir akrar eða leifar þeirra. Sums staðar eru afgirtir skikar, sem munn-
mæli nefna akra eða ekrur, eða önnur ummerki á yfirborði minna á
plægða akra. Hvort þessar minjar eru í raun minjar um akuryrkju eða
eiga sér aðrar skýringar verður ekki sagt með vissu nema með sérstakri
rannsókn á hverjum stað.
Árið 1999 var ráðist í rannsóknarverkefni sem vonast var til að varpaði
nýju ljósi á akurminjar á Íslandi. Þetta verkefni fólst í athugun á forn-
leifum á nokkrum stöðum sem taldir hafa verið akurminjar. Verkefni
þetta var styrkt af Rannís, Náttúrufræðistofnun Íslands, Þjóðminjasafni
Íslands og Fornleifastofnun Íslands.
Markmið verkefnisins var tvíþætt, annars vegar að afla þekkingar á
kornrækt til forna með því að rannsaka meinta forna akra og hins vegar
að meta árangur tiltekinna rannsóknaaðferða við fornleifarannsóknir.
Reynt var að leggja mat á hversu áreiðanlegur vitnisburður örnefni, rit-
aðar heimildir og munnmæli eru um tilvist fornra akra með því að leitast