Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2004, Page 95
Jarðraskið hefur farið nógu djúpt til að skera niður í og raska
forsögulegu gjóskulagi. Aldur þess lags er ekki þekktur, og ekki hægt að
vita hve djúpt það hefur verið undir yfirborði er jarðraskið hófst. Því
segir þetta ekkert um það hve djúpt var pælt. Þykkt hins hreyfða lags
undir gjóskulaginu frá 1357 er nú 15-20 cm.
Því má hugsa sér eftirfarandi atburðarás: Byrjað hefur verið að raska
jarðvegi á þessum stað á ótilteknum tíma en þó nokkru fyrir 1341, lík-
lega vegna jarðræktar. Þetta rask verður til þess að tvö gjóskulög, sem
annars mætti búast við á staðnum (landnámslagið og lag frá 934), finnast
þar ekki og lag sem talið er frá 1341 er mikið raskað. Ekki er hægt að
fullyrða hvort þessi ræktun stendur óslitið eða með hléum, en hún
stendur enn yfir árið 1357. Ekki verður annað séð en hún haldi áfram
eftir það ár, hvort sem eitthvert hlé hefur orðið eða ekki, en þó hefur
hún hætt alllöngu fyrir 1755. Nokkuð heillegar línur af ógreinanlegri
Kötlugjósku í jarðlaginu yfir 1357-gjóskunni gætu bent til þess að þegar
þau lög féllu hafi ekki lengur verið jarðrask á svæðinu.Af útliti hins rask-
aða yfirborðs einu saman eins og það sést í sniði verður ekki fullyrt á
hvern hátt jarðvegi hefur verið umbylt. Raskið náði niður í forsögulegt
lag, en vegna þess að ekki er vitað hvenær það hófst verður ekki ályktað
um hve djúpt var farið.
Fagridalur í Mýrdal
Fagridalur er í litlu dalverpi suðaustan í Fagradalsheiði. Norðan bæjar-
húsanna er allbrött öxl og sunnan í henni brekkur er nefnast Króktúns-
brekkur. Austast og neðst í þeim eru þrír stallar sem sagðir eru leifar
gamalla akra (12.-13.mynd).29
Fagridalur er landnámsjörð og munnmæli herma að Eysteinn land-
námsmaður, sonur Þorsteins drangakarls, sé heygður í Eysteinshaug sem er
sunnan og vestan við akurstallana. Ekki er Fagradals getið í máldögum svo
vitað sé og ekki hafa fundist heimildir er benda til kornyrkju á jörðinni.
Ákveðið var að grafa könnunarskurð í miðstallinn í hinum meinta
akri u.þ.b. miðja vegu milli austur- og vesturenda hans. Skurðurinn var
3,5 m langur og 1 m breiður, 1,25-2,10 m á dýpt. Teiknað var snið í
norðurenda og vesturhlið.
Í sniðinu í Fagradal mátti sjá ummerki jarðrasks á töluverðu dýpi.
Raskið hefur hreyft við landnámslaginu (871 ± 2), gjóskunni úr Kötlu
~920 og Kötlu 934. Á sama hátt og á Ketilsstöðum verður ekki ráðið frá
hvaða yfirborði þetta rask hefur hafist.
94 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS