Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2004, Síða 165
til.3 Höfundur Hungurvöku hefur sennilega verið miðaldra er hann reit
þessa sögu Skálholtsbiskupa og gæti því vel hafa hitt fólk sem mundi
kirkjubrotið 1118. Hungurvaka verður því að teljast fremur áreiðanleg
heimild um það atriði og vel má vera að einhver fótur hafi verið fyrir því
að Haraldur konungur hafi sent kirkjuviðinn til Íslands. Í Hungurvöku er
það orðað svo að Haraldur hafi „fengið viðinn til“ og má vera að að baki
liggi sögn svipuð þeirri um kirkju sem Þorkell Eyjólfsson ætlaði að reisa
á Helgafelli en Ólafur konungur helgi á að hafa gefið honum viðinn til
hennar.4 Að minnsta kosti er ekki augljóst að túlka Hungurvöku sem svo
að Þingvallakirkja hafi verið reist á vegum konungs.
Í yngri heimildum en Hungurvöku fær Þingvallakirkja heldur lengri
forsögu. Í Ólafs sögu helga eftir Styrmi ábóta frá um 1220 er sagt um
dýrlinginn að hann hafi látið „kirkiu gera a Jslandi a Þinguelli þar sem nu
er honum helgud kirkia.“5 Snorri Sturluson skrifaði aðra Ólafs sögu,
byggða á sögu Styrmis og prjónaði aðeins við söguna um Þingvallakirkju:
„Óláfr konungr hafði sent til Íslands kirkjuvið, ok var sú kirkja gor á
Þingvelli, þar er alþingi er. Hann sendi með klukku mikla, þá er enn er
þar.“6 Hér mætti geta þess til að þegar Þingvallakirkja var vígð Ólafi kon-
ungi hafi verið búin til helgisögn þess efnis að dýrlingurinn hafi sjálfur
gefið kirkjuvið og klukku til fyrstu kirkjunnar þar, og hefur ekki þurft að
búa hana til úr engu, aðeins hnika til um einn konung. Uppruni klukku
þeirrar sem í Þingvallakirkju var hélt þó áfram að vefjast fyrir sagnaritur-
um og seinna í Heimskringlu, í sögu Haralds harðráða, segir Snorri sjálf-
ur: „Haraldr konungr sendi klukku þangat [til Íslands] til kirkju þeirar, er
enn helgi Óláfr konungr hafði sendan viðinn til ok sett er á Þingvelli.“7
Hér er helst að halda að misvísandi sögur hafi verið á kreiki, ekki aðeins
um hvor konunganna sendi viðinn heldur einnig um klukku þá sem ver-
ið hefur í kirkjunni á árunum 1220-30 þegar allar þessar sögur eru ritaðar.
Bestu tilraun til heildarsamræmis er síðan að finna í sögu Magnúsar góða
og Haraldar harðráða í Flateyjarbók og Morkinskinnu, einnig frá um
1220: „Haralldr konungr sende vt til Jslands klucku til kirkiu þeirrar er
hinn heilage Olafr konungr sende uidin til og adra kluckuna. og su kirkia
var sett aa þinguelle þar sem alþinge er sett.“8 Hér fá báðir konungarnir
nokkurt hlutverk, Ólafur helgi kirkjuviðinn og klukku en Haraldur
harðráði aðra klukku, og má sjá á þessu að í Þingvallakirkju hafa verið
tvær klukkur á 13. öld, hvorug nýtilkomin.9 Auðvitað er ekki loku fyrir
skotið að þessar sagnir eigi allar við nokkur rök að styðjast og Ólafur
konungur hafi sent út við til að byggja kirkju á Þingvöllum á árunum
1015-1030 og Haraldur harðráði hafi gert það líka á sínum ríkisárum
164 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS