Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2004, Page 169
sé líklegra að hún hafi staðið í þinginu sjálfu, vestan Öxarár, fremur en
austanmegin, svo að segja ofan í bæjarstæðinu.
Þar til skýrari vísbendingar koma fram er einfaldast að gera ráð fyrir
að ein kirkja hafi verið reist á Þingvöllum á 11. öld og að sú kirkja eða
arftaki hennar hafi fokið í óveðri 1118. Vel er hugsanlegt að einhver fót-
ur sé fyrir sögnum um gjafir Ólafs helga og/eða Haralds harðráða til
Þingvallakirkju en ólíklegt er að úr því fáist skorið í hverju þær fólust.
Um staðsetningu þessarar fyrstu kirkju er heldur ekkert vitað en ein-
faldast er að ætla að kirkja sú er Alexíus Pálsson vígðist til í byrjun 16.
aldar hafi staðið mjög lengi á sama stað, hugsanlega allt frá byrjun 11. ald-
ar. Sú kirkja stóð í kirkjugarði þeim sem enn er á árbakkanum vestan við
bæinn – um það er Páll Vídalín býsna örugg heimild. Ekki er vitað ná-
kvæmlega hvar í garðinum kirkjan stóð, né hvort garðurinn hefur færst
eitthvað til á umliðnum öldum, sem alls ekki er ólíklegt. Elstu kirkjuleif-
anna gæti því verið að leita í miðjum kirkjugarðinum sem nú er, og er þá
tæplega mikið eftir af þeim, því að grafir hafa verið teknar þar um aldabil
og var garðurinn talinn útgrafinn um aldamótin 1900. Hafi kirkjugarður-
inn verið færður til, t.d. fjær árbakkanum, gæti kirkjuleifanna verið að
leita vestan við núverandi kirkjugarðsvegg.Viðnámsmælingar sem gerðar
voru í kirkjugarðinum sumarið 1999 sýndu reglulega ójöfnu í suðaustur-
horni garðsins en hvort þar er kirkjurúst eða eitthvað annað er ekki hægt
að segja til um án frekari rannsóknar.
Miðaldamáldagar Þingvallakirkju eru tveir og gefur hvorugur neina vís-
bendingu um staðsetningu eða gerð kirkjunnar.17 Elstu lýsingu á kirkj-
unni er að finna í máldaga Brynjólfs biskups frá 1644. Þá hafði kirkjan
verið nýlega uppbyggð og er henni lýst svo:
kyrckian i sialffre sier væn og algilld.Mattar vider / aff eik. v. staffgölff.
bunden jnnan Med eikarbóndum / og sud Med vænum grene-
bordum. þiliadur koren / heffur þetta Allt S. Eingelbrigt tillagt og
byggia läted / gamaltt Alltare og Predikunar Stoll. Standþil fyr / er
kyrckiu. kuenn sæte i kyrckiu er smijda heffur lat / ed S. Eingel-
brigt hurd aa järnum lagde annad / til S. Eingelbrigt jnnlæst
vænne læsingu Med hespu.18
Séra Engilbrikt Nikulásson var prestur á Þingvöllum 1617-1668 og hef-
ur sennilega reist þessa nýju kirkju um 1640. Næst er til afhending
Þingvallastaðar frá 1678 og er þessari sömu kirkju þá lýst svo:
168 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS