Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2004, Page 178
Gripir
137 gripir komu í ljós við rannsóknina. Langflestir komu í ljós syðst í
skurðinum, undir kirkjuveggnum og var mest um járnnagla af ýmsum
gerðum og í ýmiskonar ástandi. Langyngstu gripirnir voru í fyllingu í
skurði, sem grafinn hefur verið meðfram kirkjuundirstöðunum á 20. öld.
Þar á meðal voru vélsmíðaðir naglar, rúðubrot, bakelítstykki og moli af
kítti sem verið hefur meðfram rúðu í kirkjunni. Í fyllingunni voru þó
einnig gripir sem sýnilega eru mun eldri, sumir naglanna eru handsmíð-
aðir og bronsnagli og nokkur glerbrot eru örugglega mun eldri. Þessum
eldri gripum hefur verið rótað upp við uppgröftinn og þeir síðan lent
niðri í fyllingunni aftur. Almennt verður lítið sagt um gripina sem upp
komu næst kirkjunni. Þeir eru flestir af gerðum sem geta komið fyrir á
hvaða öld Íslandssögunnar sem er. Innan um eru þó nokkur glerbrot sem
geta verið gömul – frá 16. til 19. aldar og leirkersbrot sem eru mun eldri.
Fimm leirkersbrot fundust við uppgröftinn og eru þau öll úr sama
ílátinu. Natascha Mehler hefur greint brotin og telur hún að þau séu frá
Austur-Englandi, af svokallaðri Grimston gerð frá 13.-14. öld.26 Þessar
niðurstöður koma nokkuð á óvart því að engir aðrir gripir sem klárlega
geta talist frá miðöldum fundust við uppgröftinn næst kirkjunni og
kirkjugrunnurinn er frá því eftir 1500. Eitt af brotunum fannst í grunn-
inum en öll hin voru í lagi sem myndast hefur á 17. öld og síðar. Eitt var
í miðjum skurði milli 5 og 6 m norðan við kirkjuna en tvö voru skammt
undir grasrót rétt norðan við norðurbrún kirkjugrunnsins.
Þessi dreifing brotanna bendir til að þau hafi lent þar sem þau fundust
löngu eftir að ílátið brotnaði og brotunum var hent. Ílátið gæti hafa
brotnað á síðmiðöldum, lent í öskuhaugi, húsvegg eða grafist á víðavangi
og síðan rótast til við byggingu kirkjunnar laust eftir 1500 og lent í und-
irstöðum hennar og síðar jafnvel færst til aftur við rask í kringum kirkj-
una. Það mælir með þessari skýringu að brotin eru öll lítil og mjög eydd
eins og þau hafi orðið fyrir veðrun eða annarskonar hnjaski eftir að ílátið
brotnaði. Einnig gæti hugsast að brotin séu úr kirkjugrip sem hafi fylgt
Þingvallakirkju öldum saman og ekki brotnað fyrr en eftir að hún var
flutt upp á hólinn norðan við bæinn.Til þess gæti helst bent að svo mörg
brot úr sama grip sé að finna á tiltölulega litlu svæði. Á móti því mætti
hinsvegar benda á að í kirkjugripaskrám Þingvallakirkju frá 1397 og
1570 eru engir gripir taldir sem líklegt má telja að verið hafi úr leir.
Reyndar er ekki víst að ílátið hafi verið álitið slíkt verðmæti að það væri
talið upp í kirkjugripaskrá.
ÞINGVALLAKIRKJA 177