Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2004, Page 181
við miðaldalagið frá 1226 virðist byggingin vera yngri en það, en ekki
var beint samband milli gjóskunnar og byggingarleifanna.
Um hlutverk þessarar byggingar er erfitt að fullyrða. Skortur á eigin-
legu gólflagi veldur því að freistandi er að álykta að þetta sé þingbúð og
margt er líkt með þessari byggingu og þingbúð þeirri sem Guðmundur
Ólafsson og Mjöll Snæsdóttir grófu upp í Hegranesi 1975. Þar var einnig
lítilfjörlegt gólflag, veggirnir voru mjög þykkir (1,7-2 m) með vel hlöðn-
um ytri og innri steinaröðum með fyllingu á milli og stoðir höfðu staðið
í 15-20 sm breiðum holum í tvöfaldri röð eftir miðju húsinu.30 Sú búð
hefur sennilega verið heldur breiðari en byggingin á Þingvöllum en að
öðru leyti virðast þær býsna áþekkar.Athygli vekja stoðarholurnar í báð-
um byggingunum. Þær sýna að ekki hefur verið um að ræða tjaldbúðir af
einföldustu gerð, þ.e.a.s. með stoðum í einni röð eftir endilangri miðju
hússins til að halda uppi mæniás sem tjaldið hefur verið strengt yfir. Í
búðunum báðum eru tvær samhliða raðir eftir miðju (aðeins önnur sést í
Þingvallabúðinni) og hefur því verið trégrind í þeim áþekk grindum í
tveggja eða þriggja ása húsum. Líkindin með Hegranesbúðinni og skort-
ur á vísbendingum um annars konar notkun styðja því þá túlkun að
mannvirkið norðan við Þingvallakirkju sé þingbúð. Sé það rétt og sé
búðin frá því milli 1226 og 1500 er um að ræða fyrstu vísbendinguna
um að menn hafi byggt búðir á Þingvöllum á síðmiðöldum. Hér eru þó
heldur mörg vafaatriði og nálægðin við bæjarstæðið gerir það að verkum
að ekki er hægt að útiloka að um hversdagslegra mannvirki sé að ræða.
Helst gæti það verið skemma af einhverju tagi sem hefði haft svo lítil-
fjörlegt gólflag.
Silfurpeningurinn, leirkersbrotin og glerbrotin eru sjaldgæfir fundir og
sýna þeir fyrst og fremst hve sérstakur staður Þingvellir er. Þó að þar hafi
nálega engar skipulegar fornleifarannsóknir farið fram fyrr en á allra
síðustu árum hafa fundist þar margir merkir og sjaldgæfir gripir, m.a.
tá-bagall í Úrnesstíl frá 11. öld og enskur silfurpeningur frá 1016-35.31
Slíkir gripafundir eru auðskiljanleg afurð þinghalds – þar sem margir
efnamenn koma saman og ekki alltaf allsgáðir.
Athygli vakti við uppgröftinn að allur jarðvegur í skurðinum, alveg
niður á klöpp, var hreyfður af mannavöldum. Stór hluti af uppsöfnun
jarðvegs á þessum stað er að sönnu af völdum áfoks, en ljóst er að jarð-
vegurinn ofan á klöppinni hefur upphaflega verið færður þangað af
mönnum. Þegar menn komu að Þingvöllum á 9. eða 10. öld hefur svæð-
ið sem nú er Þingvallatún aðeins verið lítt gróið hraun eins og enn er
allsstaðar í kringum túnið, berar klappir með gróðri í sprungum og
180 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS