Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2004, Page 186
NOKKRAR LEIÐRÉTTINGAR
Glöggir lesendur Árbókar hafa komið auga á nokkrar villur í Árbók
2000-2001.
Rúnaristur á Íslandi
Þórður Tómasson hefur komið þeirri ábendingu til Árbókarinnar að
ranglega sé farið með áletrun á öskjuloki í safninu í Skógum í grein
Þórgunnar Snædal „Rúnaristur á Íslandi“ í Árbók 2000-2001. Þar segir á
bls. 40 að á öskjulokinu sé áletrun með einhvers konar dulrúnum, sem
ekki hafa verið lesnar, og þar sé einnig áletrun með höfðaletri. Að sögn
Þórðar Tómassonar er skorið með höfðaletri:
HVAD ÞU GIOR ÞA GIOR ÞAD FORSJALIGA
Í sömu grein hefur dánarár Magnúsar Grímssonar misritast á bls 18, í
texta undir 4. mynd. Rétt er að Magnús lést 1860.
Pompei Íslands
Á blaðsíðu 94 í grein Steffen Stumman Hansens um „Pompei Íslands“, á
15. mynd sjást þeir Mårten Stenberger og Aage Roussell um borð í S.S.
Lyru. Ranglega segir í myndartexta að þetta sé úti fyrir Reykjavík, en
augljóslega er þetta í Vestmannaeyjum, og blasir Helgafell við á
myndinni.
Timburkirkja og grafreitur úr frumkristni
Þá segir ranglega í grein Steinunnar Kristjánsdóttur, „Timburkirkja og
grafreitur úr frumkristni“ á bls. 116 að hornstoðir timburkirkju hafi
fundist „á Eyri í Skutulsfirði við Djúp“ og er þar vísað til rannsóknar
Magnúsar Þorkelssonar. Rétt er að það var kirkja á Kirkjubóli við
Skutulsfjörð, sem Magnús rannsakaði, eins og einnig kemur fram af
heimildaskrá. Í greininni er talið að þessi gerð kirkna hafi horfið nálægt
lokum 11. aldar (bls. 126), en Magnús óskar þess að fram komi að hann
telji kirkju þá, sem hann rannsakaði á Kirkjubóli, yngri en 1300.