Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2009, Blaðsíða 20
18
Tímarit um menntarannsóknir, 6. árgangur 2009
föður, stjúpmóður, stjúpföður eða besta vin um
það sem ylli þeim áhyggjum (1: Mjög auðvelt;
4: Mjög erfitt).
niðurstöður
Í 1. töflu er sýnt algengi eineltis í úrtakinu, sem
flokkað er eftir kyni og aldri. Af 11.565 sem
tóku afstöðu til spurninga um einelti sögðust
1.020 (8,8%) vera þolendur, gerendur eða
hvorutveggja samkvæmt skilgreiningu Solberg
og Olweus (2003). Alls tengjast 10,4% drengja
einelti en 5,7% stúlkna. Strákar eru líka mun
oftar gerendur en stúlkur; 4,4% á móti 1,7%.
Sjá má greinilega breytingu á formi eineltisins
með hækkuðum aldri. Þannig fækkar þolendum
hlutfallslega frá 6. upp í 10. bekk, en gerendum
fjölgar.
Þegar horft er til þeirra einstaklinga sem
oftast verða fyrir einelti kemur í ljós að 139
nemendur (1,2%) segjast vera lagðir í einelti
um það bil einu sinni í viku hverri. Strákar
eru fleiri í þessum hóp en stelpur; 1,6% (89) á
móti 0,9% (50). Sömuleiðis er þetta algengara
meðal yngri hópsins, þar sem 1,6% (60) sjöttu
bekkinga verða fyrir einelti einu sinni í viku,
en 0,6% (23) tíundu bekkinga.
Í þeim hóp sem verður fyrir einelti nokkrum
sinnum í viku eru 176 einstaklingar (1,6%).
Aftur eru strákarnir fleiri, eða 1,9% (108)
á móti 1,2% (67) stelpna. Svo títt einelti er
tvöfalt algengara meðal sjöttu bekkinga (2,0%,
n=74) en tíundu bekkinga (1,0%, n=39).
Í 2. töflu er sýnt hlutfall þeirra nemenda sem
eiga ekki eða hitta ekki foreldra eða besta vin.
Nokkuð afgerandi munur er á þeim sem eru
bæði gerendur og þolendur og öðrum þegar
horft er til þess hverjir eiga engin samskipti
við móður eða föður. Þannig eru 11% þessara
barna ekki í neinu sambandi við föður sinn
samanborið við 3−5% hinna. Munurinn er ekki
síðri þegar horft er til hlutfalls þeirra sem eiga
ekki nein samskipti við móður, en það á við
um tæp 9% þeirra sem eru bæði þolendur og
gerendur eineltis en 1−2% annarra nemenda.
Þegar hlutfall þeirra nemenda sem ekki
telja sig eiga besta vin er skoðað í 2. töflu
kemur einnig fram nokkuð afgerandi munur
milli hópanna. Þeir sem verða fyrir einelti eiga
mun síður besta vin, hvort heldur sem þeir eru
einungis þolendur eða líka gerendur. Þá er ekki
síður athyglivert að gerendur eineltis eru í raun
líklegastir til að eiga besta vin.
Í 3. töflu eru sýnd tengsl eineltis við það
hversu auðvelt nemendurnir telja sig eiga
með að tala við fjölskyldu og vini. Hafi
nemendur á annað borð samskipti við föður
virðast þau samskipti lakari meðal nemenda
sem eru annaðhvort einungis þolendur eða
einungis gerendur eineltis. Það kemur hins
vegar nokkuð á óvart að þeir sem bæði eru
þolendur og gerendur virðast eiga auðveldustu
samskiptin við feður ef þeir eru á annað borð
til staðar. Stúlkur mátu samskipti sín við feður
almennt lakari en strákar, en það mynstur var
jafnt dreift yfir alla eineltishópana.
Af 3. töflu má sjá að samskipti við stjúpfeður
eru almennt talsvert lakari en samskipti
við feður. Meðal þeirra nemenda sem eiga
stjúpfeður er gæðum samskipta við þá nokkuð
jafnt skipt. Um helmingur þeirra nemenda telur
sig eiga mjög erfið eða erfið samskipti við
stjúpföður og helmingur á auðveld eða mjög
auðveld samskipti. Hins vegar er áhugavert
að sjá að þolendur eineltis eru eini hópurinn
2. tafla. Tengsl eineltis við hlutfall nemenda sem eiga ekki eða hitta ekki foreldra eða besta vin
Ekkert einelti Þolendur Gerendur Bæði
% (n) % (n) % (n) % (n)
Á ekki/Hittir ekki
Föður 3,2 (268) 3,4 (14) 4,6 (11) 11,0 (9)
Móður 1,2 (101) 2,2 (9) 2,1 (5) 8,6 (7)
Besta vin 2,4 (196) 12,0 (46) 1,3 (3) 9,3 (7)
Ársæll M. Arnarsson og Þóroddur Bjarnason