Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2009, Blaðsíða 91
89
Tímarit um menntarannsóknir, 6. árgangur 2009
2005 með stuðningi Markáætlunar um
upplýsingatækni og umhverfismál. Þar var
skoðuð notkun upplýsingatækni á öllum
skólastigum. Markmið rannsóknarinnar var
að komast að því hvað notkun upplýsinga-
og samskiptatækni hefði í för með sér fyrir
nemendur og nám, fyrir kennara og kennslu
og fyrir skólann sem stofnun. Niðurstöður
leiddu í ljós að notkun UST í kennslustundum
var almennt skammt á veg komin, möguleikar
voru oft vannýttir og notkun einhæf. Einstakir
kennarar notuðu UST að eigin frumkvæði í
þágu kennslu og náms fremur en að markvissri
stefnu væri framfylgt í skólum (NámUST,
2005) og að mati þátttakenda nýttist UST vel
í kennslu sem byggðist á verkefnavinnu og
skapandi starfi þar sem hefðbundin stundaskrá
var brotin upp og kennarar störfuðu saman. En
ljóst var að ekki hefði tekist að tvinna saman
notkun UST og faggreinakennslu. Svipað kom
fram í rannsókn frá 2005 (Allyson Macdonald,
Þorsteinn Hjartarson og Þuríður Jóhannsdóttir,
2005), þar sem höfundar komust að þeirri
meginniðurstöðu að höfundar námskráa 1999
hefðu líklega ofmetið forsendur skólanna til
að takast á hendur þær breytingar sem notkun
UST krafðist.
Fáar rannsóknir hérlendis hafa beinst
að notkun UST í kennslugreinum og færni
kennara. Manfred Lemke (2005) gerði könnun
sem byggðist á svörum frá 1088 kennurum
um eigin færni í tölvunotkun. Við nánari
skoðun á færni í mismunandi kennslugreinum
kom fram að í þremur kennslugreinum var
staðan best: Raungreinum, samfélagsgreinum
og stærðfræði. Raungreinakennarar töldu sig
hafa mesta færni allra hópa og vel fyrir ofan
meðaltal. List- og verkgreinakennarar voru
meðal þeirra sem töldu sig hafa minnsta færni.
Munurinn milli hópanna fólst aðallega í notkun
töflureiknis. Athyglisvert er að Manfred var á
þeirri skoðun að færni kennara væri sterkari
í greinum „þar sem tölvunotkun á sér lengri
hefð“. (Manfred Lemke, 2005, bls. 58).
Aðalbjörg María Ólafsdóttir (2009) rann-
sakaði aðstæður sex myndlistarkennara og
komst að því að þótt kennararnir teldu sig nota
UST í kennslu sinni reyndist notkun lítil og
þá að stórum hluta við undirbúning kennslu
og svonefndar innlagnir en í minna mæli sem
stuðningur við sjálft námið. Nemendur fengu
örsjaldan verkefni sem tengdust möguleikum
upplýsingatækni á að breyta eða styðja við
námið. Myndlistarkennararnir í rannsókninni
virtust ekki telja sig þurfa að taka ábyrgð á
því að fylgja aðalnámskrá í upplýsinga- og
tæknimennt sem er vert athygli í ljósi þeirra
ákvæða sem vitnað var til hér að framan úr
aðalnámskrá.
Svava Pétursdóttir stundar nú doktorsnám
við Háskólann í Leeds. Þar rannsakar hún þátt
UST í kennslu náttúruvísindakennara í 7.–10.
bekkjum hér á landi. Rannsóknin saman-
stendur af spurningakönnunum og viðtölum.
Í samtali við Svövu kom fram að samkvæmt
gögnum hennar reyndist algengasta formið á
notkun UST í náttúrufræðikennslu vera öflun
upplýsinga af Netinu um valin viðfangsefni
og kynning á þeim með glæruforriti (Power-
Point) eða í ritvinnslu í ritgerðum. Notkun
kennara á PowerPoint-forritinu virtist sam-
kvæmt þessu orðin töluvert mikil í almennri
kennslu þegar gagnasöfnun hennar fór fram.
Rannsókn á stefnumörkun og þróun
í upplýsingatækni og stafrænu námsefni á
Íslandi, hluti af stærra rannsóknarverkefni sem
unnið var af OECD á árunum 2007–2009
(OECD/CERI, 2008, 2009), leiddi í ljós að á
Íslandi virtist vera hægt að kenna allar greinar,
nema upplýsingatæknina sjálfa, án þess að
nota tölvur. Stefnan reyndist vera mörkuð af
hálfu yfirvalda en treyst var á frumkvæði fólks
á skólavettvangi til að framkvæma hana með
gerð námsefnis og gagna og umsóknum um
styrki til þess. Líkt og hjá Bennett (2003) kom
þarna fram að kennarar þyrftu meiri stuðning
og skapa þyrfti vettvang, t.d. á Netinu, fyrir
kennara til að mynda samfélag um vinnubrögð
og kennsluhætti. Þetta virðist vera réttmæt
niðurstaða, því að kennsluráðgjöf á sviði
upplýsingatækni er veikburða hér á landi og
faggreinafélög á sviðinu virðast ekki hafa
lagt á þetta áherslu. Opinbert fé sem fer í
gerð stafræns námsefnis er veitt í gegnum
Náttúrufræðinám með stuðningi upplýsinga- og samskiptatækni