Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2009, Blaðsíða 139
Tímarit um menntarannsóknir, 6. árgangur 2009
að þá mynda þau ekki þessa sjálfstjórn og
sjálfræði.“ Þátttakendur töldu að börn þyrftu að
læra að lúta reglum til að öðlast innri aga – til
þess að geta farið eftir reglum og síðan bjargað
sér sjálf síðar meir. Þær töluðu einnig um að
börnin þyrftu að standa við þær ákvarðanir sem
þau tækju og áttu þá m.a. við að börnin héldu
sig við það sem þau hefðu valið sér að gera.
„Það eru reglur úti um allt og maður getur ekki
leyft sér að vera bara stjórnlaus og vaða bara
uppi,“ sagði Telma. Í rýnihópi Fjalls sögðu
þátttakendur þetta: „Starfið snýst um það að
við berum þessa umhyggju fyrir barninu. Það
er stór þáttur í því að kenna og leggja inn hjá
þeim – í öllu sem við erum að gera.“
Gildi umhyggju fyrir
starfið í leikskólanum
Bæði í viðtölunum og umræðunum í rýnihópum
kom fram að umhyggjuhugtakið hefði fengið
frekar neikvæða umfjöllun þar sem það væri
oftast tengt umönnun aldraðra sem væri svo
aftur tengd manneklu og lágum launum.
Líklegast væri það ástæða þess að umönnun og
umhyggju væri ekki gert jafnhátt undir höfði nú
og áður fyrr. Þetta viðhorf kom skýrt fram hjá
Maríu: „Við vorum að ræða þetta um daginn
... þetta er farið að fá þannig séð einhvern
neikvæðan stimpil þó að þetta sé ekkert ljótt orð
– neikvæðari mynd heldur en var, finnst mér.“
Í rýnihópi Fjalls kom hins vegar fram að
þeim fyndist eins og umræðan væri farin
að snúast í þá átt að það að vera fær um að
sýna umhyggju og þekkja tilfinningar sínar
og þora að sýna þær væri eitthvað sem væri
eftirsóknarvert. Þetta töldu þær að hefði breyst
í áranna rás. Þátttakendum fannst líklegt að
hluta skýringarinnar mætti rekja til þess að
Íslendingar hefðu yfirleitt verið taldir heftir og
ekki gjarnir á að sýna eða tala um tilfinningar
sínar. Í uppeldinu hefði þetta birst þannig að
það mátti ekki gráta, það átti að harka af sér og
vera duglegur; það var talið veikleikamerki ef
sást að eitthvað var að. En eins og kom fram í
rýnihóp Fjalls: „En ég held við séum að læra,
bara þessa umhyggjusemi, hún er miklu meiri
[í dag] og hún er ekkert plat, skilurðu. Hún er
virkilega það sem fólk vill sýna í dag.“
Að mati þátttakenda í rannsókninni er
umhyggja innbyggð í allt starf leikskólans og
felst í því að mæta hverju barni þar sem það er
statt, jafnt líkamlega sem andlega. Umhyggja
felst í samskiptum og tengslum sem lýsa sér
í því að hlusta á þarfir, væntingar og langanir
allra barnanna. Umhyggja birtist í því að skapa
traust og öryggi með því að setja mörk og
sýna hlýju og gefa barninu með því tækifæri
til að þroskast og dafna á eigin forsendum
og nýta möguleika sína á sem bestan hátt.
Umhyggja er fólgin í skipulagi og reglum sem
skapa öryggi. Umhyggja kemur fram í því að
láta sig varða þroska hvers einasta barns. Í
flestum viðtölunum kom fram það viðhorf að
umhyggja fyrir grunnþörfum einstaklingsins
væri forsenda þess að hann næði að þroskast
og læra. Eins og Saga orðaði það:
Þau þurfa að nærast, þau þurfa að hvílast,
þeim þarf að líða vel, vera þurr. Sem sagt,
já, í þurrum fötum, ekki kalt og ekki of
heitt. Þetta þarf allt að koma í rauninni
áður ... svo getur maður farið að læra, og
læra með ánægju. Hafa gaman af að leika
sér eða, já, að vera til almennt.
Saga bar þetta saman við þarfapíramída
Maslows, hún taldi undirstöðurnar þurfa að
vera sterkar svo að yfirbyggingin héldi. Unnur
taldi að áhrifa umhyggjunnar gætti til lengri
tíma; þannig gæti t.d. skortur á umhyggju á
fyrstu árum barns haft áhrif á tilfinninga- og
félagsþroska þess síðar á ævinni. „Ég held að
hún [umhyggjan] skipti alveg rosalega miklu
máli,“ sagði Unnur. Þegar ég bað hana að
nefna mér dæmi svaraði hún:
Já, við gætum kannski bent á svona
vanrækta einstaklinga, þeir eru til sem
eru alveg sýnilega vanræktir og það
kemur mjög fljótt fram. Ég held að þessir
einstaklingar geti minna gefið af sér og
verði svona einhvern veginn kaldari og
svona, já, passívari og þeir eiga erfitt með
að mynda tengsl.
Sama sjónarmið kom fram hjá Tönju sem
sagði: „Umhyggja á fyrstu árunum er forsenda
137 „Blítt bros og hlýtt faðmlag“