Skírnir - 01.01.1966, Page 24
22 Aðalgeir Kristjánsson Skírnir
út af Raskdeilunni og reyndist félaginu hinn nýtasti stjórn-
andi í hvívetna.
Á forsetaárum Þorgeirs réðst Bókmenntafélagið í það fyrir-
tæki, sem eitt sér mundi nægja til að geyma nafn þess í sögu
okkar, þó að það hefði ekkert annað að hafzt. Þetta var
kortlagning landsins. Tillaga þessi var komin frá Reykjavíkur-
deildinni, en þar hafði þetta verið til umræðu veturinn 1831.
Hún var þess efnis, að félagið skyldi verja nokkru af tekjum
sínum árlega til þessa verks. Hér var að vísu farið út fyrir
hina upphaflegu stefnuskrá félagsins. Hins vegar hratt Bók-
menntafélagið hér í framkvæmd verki, sem danska stjórnin
hafði verið með á prjónunum í meira en öld og ekki tekizt að
leiða til lykta. Björn Gunnlaugsson, kennari við Bessastaða-
skóla, tókst mælingarnar á hendur og leysti það með ágætum,
en því má ekki gleyma, að félagið fékk styrk frá dönsku
stjórninni til að vinna verkið. Jón Sigurðsson forseti lýkur
miklu lofsorði á hlutdeild Þorgeirs Guðmundssonar í þessu
máli, því að það kom að mestu leyti í hans hlut að sjá um, að
úr mælingunum væri unnið.
Prófessor Finnur Magnússon tók við forsetastörfum af
Þorgeiri 27. marz 1839. Á fundi, sem haldinn var 25. ágúst
árið áður, bar Jónas Hallgrímsson fram tillögu þess efnis,
að kjósa skyldi nefnd manna og fela henni á hendur að safna
öllum fáanlegum skýrslum, fornum og nýjum, er lýsi Is-
landi eða einstökum héröðum þess, og undirbúa svo nýja og
nákvæma lýsingu af Islandi, sem síðan verði prentuð á kostnað
Bókmenntafélagsins. Þessi tillaga fékk svo góðar undirtektir,
að ný nefnd var sett á laggirnar til þess að hefja undirbúning
verksins. Hún sendi út boðsbréf um samningu sóknarlýsinga
til undirbúnings almennri lýsingu landsins ásamt spurningum.
Prestar og sýslumenn skyldu senda félaginu lýsingar, hver
yfir sína sókn og sýslu. Ekki verður annað sagt en þeir hafi
orðið vel við beiðni nefndarinnar, því að langflestir sendu
hinar umbeðnu lýsingar þetta sama ár eða árið eftir. Hinar
eru í miklum minni hluta, sem ekki komu fyrr en löngu síðar.
I dag eru þetta merkilegar heimildir um þjóðlíf og þjóðhagi,
þó að þær yrðu aldrei notaðar eins og upphaflega var ráð