Skírnir - 01.01.1966, Page 38
NJÖRÐUR P. NJARÐVÍK:
INDRIÐI G. ÞORSTEINSSON.
Árið 1951 efndi tímaritið Samvinnan til smásagnakeppni,
og tóku um 170 höfundar þátt í henni, en alls bárust 196
smásögur. Má fullyrða, að aldrei hafi verið jafnmikil þátt-
taka í slíkri keppni hér á landi. Þeim mun meiri var undrun
manna, er úrslit voru gerð kunn og í ljós kom, að sigur-
vegarinn var algerlega óþekktur ungur maður, aðeins 25 ára
að aldri, enda varð verðlaunasagan, sem hét því fallega nafni
Blástör, brátt á hvers manns vörum. En hinn ungi maður
naut verðlauna sinna, sigldi til Afríku og sleikti sólskinið
undir bláum himni Miðjarðarhafsins, meðan landar hans
undruðust þennan óvænta sigur.
Þannig hélt Indriði G. Þorsteinsson innreið sína í heim
íslenzkra bókmennta við lúðraþyt og söng, og var ekki laust
við, að ýmsum þætti nóg um. Óhjákvæmilega barst tal manna
að því, hvort Indriði hefði í raun réttri unnið til svo skjót-
fengins frama. Fæstir höfðu kynnzt honum áður á prenti og
þá sennilega án þess að hafa gefið því tiltakanlega mikinn
gaum. Árið áður hafði birzt eftir hann sagan Dalurinn, en
sú saga er ekki boðberi neinna tíðinda og birtir á engan hátt
skýr höfundareinkenni. Hins vegar er í Blástör sleginn mjög
skýr og eftirtektarverður upphafstónn, ótvíræður lagboði. Það
kemur einnig í ljós með samanburði við þær tvær sögur. er
dæmdar voru standa næstar Blástör að gæðum, að Indriði
hefur unnið fremur auðveldan og alveg áreiðanlega verð-
skuldaðan sigur. Það táknar vitanlega ekki, að sagan sé full-
komin, enda er Blástör fjarri því að vera gallalaus saga. Hins
vegar leynir sér hvergi handbragð ótvíræðra hæfileika, sem
koma kannski skýrast í ljós í myndrænni skynjun, orðfárri,
en lifandi frásögn og miklu sjálfsöryggi.