Skírnir - 01.01.1966, Page 43
Skírnir
Indriði G. Þorsteinsson
41
sameinast hann landinu. Síðustu hugsanir hans, þar sem
hann liggur undir bifreiðinni og bíður dauðans, snúast ekki
um ástmey hans eða hið öra líf vaxandi borgar, heldur um
fannhest í Mælifellshnjúk: „Nú er að verða myrkur og það
hefur verið mikilfenglegt að horfa á fjöllin og vont að bíða
í dimmunni. Samt er það umberanlegt, því ég veit: Hnjúk-
urinn er þarna og bíður með mér.“
Hjá því gat ekki farið, að margir ættu erfitt með að sætta
sig við að sjá Indriða endurtaka leikinn frá 1951. Nú hafði
hann unnið yfirburðasigur með fyrstu skáldsögu sinni. 79 af
stöðinni fékk að vísu yfirleitt vinsamlega dóma — að mestu
leyti, en furðumargir fundu hvöt hjá sér til að hnýta í höf-
undinn. Einkum vildu menn setja út á stíl sögunnar. Kunn-
ur bókmenntamaður, sem staddur var í Danmörku, sagði, að
nú væri það helzt í fréttum af Islandi, að Skagfirðingar
væru búnir að uppgötva Hemingway. Víst er það rétt, að
stíllinn er ekki frumlegur, þótt hann sé nýstárlegur í ís-
lenzkri skáldsögu. Vitanlega leynir sér ekki, að höfundur er
undir mjög sterkum áhrifum hinnar amerísku skáldsögu-
stefnu, þar sem Hemingway vísaði áttina um aldarfjórðungs
skeið. Setningar eru stuttar og einfaldar, næstum snubbótt-
ar, frásögnin ákaflega hröð og vafningalaus, en undir niðri
er þung undiralda, ekki vegna ádeilu eða beiskju, heldur
meir í átt við söknuð og trega, og það kemur svo sannarlega
frá Indriða G. Þorsteinssyni. Auk þess gleymdist mörgum,
hversu mikið er upprunalegt og frumlegt í stíl sögunnar og
gerð. Til dæmis má vekja athygli á því, að í sögunni er
hvergi minnzt á þjóðfélag, en þó er sagan meiri þjóðfélags-
saga en flestar aðrar íslenzkar skáldsögur. Slíkt er ekki vanda-
lítið. Þá er hinn mikli hraði og vald á frásögn. Ég leyfi mér
að vitna til Bjarna Benediktssonar frá Hofteigi, en hann seg-
ir svo í ritdómi í Þjóðviljanum 13. marz 1955: „Henni fleyg-
ir fram, hratt og þó án ásteytingar; viðburðir eru ekki til-
búnir heldur koma þeir af sjálfu sér; manni sýnist enginn
vandi að segja svona einfalda sögu: það er eins og að sjá
slípaðan flöt og muna ekki höndina né hamarinn sem börðu
hrjúfan steininn.“ Ekki má heldur gleyma persónusköpun