Skírnir - 01.01.1966, Page 47
Skírnir
Indriði G. Þorsteinsson
45
lukka.“ Einnig er vert að gefa því gaum, hvernig höfundur
beinlinis leitast við að gera hina nýju sögu sem ólikasta
79 af stöðinni. Enginn getur sagt, að Land og synir byggist
á persónulegri reynslu höfundar, eins og auðsætt var um
79 af stöðinni. Hún er einnig skrifuð í þriðju persónu og
í raun og veru úr nokkrum fjarska. Og fólkið í þessari sögu
á í höggi við allt önnur öfl en Ragnar Sigurðsson og sam-
ferðafólk hans. Það á ekki í útistöðum við erlendan her eða
ofvöxt borgarlífs á gelgjuskeiði, heldur við landið, kreppuna,
mæðiveiki og úrræðaleysi til sjálfsbjargar.
Tökum eftir upphafslínum Lands og sona: „Hrímgaðan
þakgróðurinn bar við kyrrt dimmleitt morgunloftið að baki
gamla mannsins og puntur þekjunnar bærðist ekki yfir grá-
um veðruðum stafnþiljum bæjarins þennan nýbyrjaða haust-
dag.“ Hér er sleginn allt annar tónn en i upphafi 79 af stöð-
inni. Hér er nánast um kyrralífsmynd að ræða, andstætt
hreyfingunni, er mótaði 79 af stöðinni frá upphafi til enda,
annars vegar hraði borgarinnar, hins vegar kyrrð sveitarinn-
ar. Mismunur stílsins kemur einnig greinilega fram í upp-
hafslínum bókanna. 1 Landi og sonum er stíllinn að vísu
enn knappur, en hann hefur öðlazt meira þanþol, meiri mýkt
og hlýju án þess að lengjast eða rakna í sundur. Að vísu má
sjá þess merki á stöku stað, að stíllinn sé mikið unninn, en
það breytir engu um heildarsvipinn. Gildi hans er framar
öllu fólgið i hinni þungu undiröldu, sem Indriða tekst að
magna í fámálli frásögn, þeim hljóða krafti, sem hleðst upp
ósagður milli línanna. En auk þess er stíllinn formfagur og
hnitmiðaður og rís kannski hæst að fegurð til í náttúru-
lýsingum. Hér er einnig kominn fram nýr eiginleiki í fari
Indriða. Hér kemur náttúran, landið sjálft, miklu skýrar
fram en áður í sögum hans. Segja má, að það komi til ein-
faldlega vegna efnis sögunnar, enda myndi reynast erfitt að
túlka líf þess fólks, sem bókina byggir, án þess að fram kæmi,
að það er í rauninni hluti landsins og náttúrunnar. Engu
að síður eru þær svo óvenjulega sérstæðar, bundnar svo per-
sónulegri skynjun, að ógerningur er að komast hjá að gefa