Skírnir - 01.01.1966, Page 82
80
Björn K. Þórólfsson
Skirnir
ing á grein um Þingvallafundinn úr norska blaðinu Verdens
Gang, einu merkasta blaði vinstrimanna í Noregi, og hafði
hún birzt þar í júlímánuði. Þar segir, að á fundinum hafi
verið allir helztu þjóðmálaskörungar Islands, og óhætt sé að
fullyrða, að hann hafi borið fram sannan þjóðvilja Islend-
inga. Síðan er skýrt frá sjálfstæðiskröfum Þingvallafundarins
og andmælt ummælum blaða „hinna dönsku grundvallarlaga-
brjóta“, en þar mun sérstaklega átt við grein þá í Dagbladet,
sem hér er ritað ágrip af. Að lokum er því lýst, að öll alþýða
manna í Noregi muni í huganum fylgja fslendingum „í
þeirra göfugu baráttu fyrir rétti sínum“.
Alþingi var sett 1. júlí. Þeim þingmönnum, sem stjórnholl-
ir voru eða hægfara í stjórnarbótarmálum, mun hafa staðið
stuggur af kröfuhörku Þingvallafundarins, og virðast þeir
hafa haft viðbúnað nokkurn til að hnekkja völdum hinna
róttæku á Alþingi. Þingsetningardaginn unnu íhaldsmenn-
irnir þann sigur, að Jóni á Gautlöndum var hrundið úr for-
setastól neðri deildar, sem hann hafði skipáð síðan 1879. Nú
var Grímur Thomsen kjörinn í þetta veglega embætti með
12 atkvæðum, en Jón fékk sjö atkvæði.
En þegar þingið tók að fjalla um stjórnarskrármálið, reynd-
ist íhaldið áhrifaminna. Andi Þingvallafundarins sveif vfir
vötnunum, þó að Alþingi gengi skemmra í kröfum en sam-
þykkt hafði verið á þeim fundi.
Þegar vika var af Alþingi, sjöunda dag júlímánaðar, fluttu
þeir Benedikt Sveinsson, Jón Ólafsson og Jón Sigurðsson í
neðri deild frumvarp til stjórnarskipunarlaga um hin sérstak-
legu málefni fslands. Samkvæmt þessu frumvarpi átti skipu-
lagið á stjórn íslenzkra sérmála að vera mjög líkt því, sem
fram á var farið í frumvarpi eða aðaluppástungu Alþingis
1873, og var frumvarp þremenninganna að þessu leyti á öðr-
um grundvelli byggt en stjórnarskrárfrumvarp neðri deildar
1883. Hins vegar var það grundvallaratriði sameiginlegt með
frumvarpinu frá 1883 og hinu nýja frumvarpi, að stjórnar-
skráin skyldi aðeins taka til sérmálanna eins og þau voru
afmörkuð í stöðulögunum, en tilvitnun til þeirra laga var