Skírnir - 01.01.1966, Side 138
136
Magnús Már Lárusson
Skirnir
Reyndar virðist heildarmyndin af ástandinu fram til 1217
einkennast af því, að ákvæðin margræddu hafi verið hert í
framkvæmd, eftir því sem tímar liðu fram, enda sjáum vér
af erkibiskupshréfunum þremur frá s. hl. 12. aldar, að mikil
áherzla er lögð á að koma í veg fyrir frændsemis- og sifjaspell,
einkum í því yngsta, sem setur fram hinar almennu reglur
kirkjunnar, sem að vísu eru ekki alveg samhljóða íslenzkum
rétti, en má skilja sem mark, er stefna beri að. Skriftaboð
Þorláks helga benda og í þessa sömu átt.
Björn Þórðarson hefur sýnt fram á, að Klængur biskup
framdi frændsemisspell í þriðju gráðu, sem að vísu var alvar-
legt afbrot. Jóra, dóttir hans, giftist Þorvaldi Gizurarsyni í
Hruna, sennilega um eða fyrir 1186. Hún er talin dáin 1196.
I Islendingasögu segir, að þeim var meinuð samvist af kenni-
mönnum. En í utanför nokkru síðar aflaði Þorvaldur sér
leyfis erkibiskups, sem Haukdæla þáttur nefnir, að vísu rang-
lega, Guttorm, að þau skyldu vera ásamt tíu vetur þaðan frá.
En að þeim tíma liðnum skyldu þau skilja, hvort er þeim
væri það blítt eða strítt.
Það er mjög erfitt að skýra þetta. Til grundvallar andmæl-
um kennimanna virðist eingöngu geta legið hugtakið
„incestus“. En að erkibiskup skuli þá takmarka leyfið til tíu
ára er torskilið, úr því að samvistarleyfi er á annað borð veitt.
Elzta ótvíræða dæmi, sem ég þekki, um tímabundið leyfi er
frá dögum Urbans páfa VI (1378—89), er veitti Konráði
erkibiskupi í Trier umboð til að veita leyfi, þ. e. dispensatio,
til þriggja ára í tilteknum málum. Ef til vill er hér á ferð ein-
hver misskilningur, því að Haukdæla þáttur segir svo, að um
sömu mundir og leyfistíminn átti að renna út, hafi Jóra
andazt. Þau eignuðust 5 syni. Sá þeirra, sem mest bar á, Björn,
fékk veldi sitt með kvonfangi. Gæti það bent til óskilgetins
uppruna og að leyfi þetta hafi aldrei verið til. Að vísu taka
sumir bræðranna vígslu, og er aðalreglan þá, að vígsluþegi sé
skilgetinn, en tiltölulega auðvelt er að fá undanþágu frá því.
Ef til vill er hugsunin sú í heimildinni að benda á 10 ára
hefð, sem töluvert miklu yngri dæmi geta til löggildingar
upphaflega ólöglegs hjúskapar.