Skírnir - 01.01.1966, Blaðsíða 166
164
Einar Ól. Sveinsson
Skírnir
birtist eins og leiftur og hverfur, eða hún er horfin, hvert? til
einhvers staðar, þar sem skáldið hittir hana aldrei aftur. Eða
ef hann hittir hana aftur, er hún orðin að annarri konu, eða
hann að öðrum manni. Miklu sjaldnar .segja skáldin frá því,
að konan fagra nemi staðar hjá þeim, setjist að hjá þeim. Það
er ekki verkefni vort í þetta sinn að rannsaka sannindi þessara
sagna skáldanna, en búast mætti við, að þau þekktu sinn heim
betur en aðrir menn.
II.
Erindi þetta nefnist ‘Kormakur skáld og vísur hans’. Efni
þess er ein hinna fornu íslendingasagna, frásögn hennar af
skáldinu, og vísurnar, sem hún eignar honum.
Atburðir hennar eru í sem skemmstu máli á þessa leið: A
dögum Idaralds konungs hárfagra var höfðingi sá í ríkinu,
víkverskur að ætt, sem Kormakur hét, ríkur og kynstór.1)
Hans son hét Ögmundur, víkingur mikill. Hann eignaðist
Helgu Fróða dóttur jarls, og barðist um hana við víking.
Ögmundur vingaðist ekki við Harald konung og fór til Islands.
Helga kona hans og sonur þeirra dóu í hafi. ögmundur kom í
Miðfjörð, hitti Miðfjarðar-Skeggja og þá land að honum á Mel.
Hann fékk Döllu, dóttur önundar sjóna; þeirra synir voru
Þorgils og Kormakur skáld. Ögmundur andaðist, en Skeggi
hafði umsjá um bú þeirra. Auðséð er, að fjárhagur þeirra
Döllu og sona hennar gengur saman.
Eitt sinn fer Kormakur á fjall með húskörlum og gistir í
Gnúpsdal í leiðinni. Þar var ung mær sú, er Steingerður hét,
dóttir Þorkels í Tungu. Þau felldu þegar hugi saman, og orti
Kormakur um hana margar vísur. Kormakur verður eftir á
bænum og bíður þar, meðan húskarlar fara á fjall „að elta
mórauða sauði“, eins og hann segir í vísu.
Eftir þetta tekur Kormakur að venja komur sínar að Gnúps-
1 Rétt er að geta þess, að í síðari tíma útgáfum, þar með minni, er jafnan
ritað Kormákr, en síðan hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, að sá ritháttur
sé ekki réttur og fái sér engan stuðning í eldri heimildum; stutt a 1
Kormakr kemur líka heim við írsku myndina Cormac.