Skírnir - 01.01.1966, Page 201
Skímir
Kormakur skáld og vísur hans
199
og aðflutningsrás fyrir „amour courtois“, þá er það heldur
en ekki hæpið. Áhrif hennar á Islandi munu ekki hafa verið
verulega mikil í fyrstu. Sú saga, sem sýnir mest rómantískt
áhrif mun vera Laxdæla, en eru þau áhrif komin frá Trístans-
sögu? Öefað gætir nokkuð áhrifa frá „amour courtois“ í
Trístanssögu, það er að segja í gerð Tómasar skálds, hins
vegar eru það ekki nema blettir hér og þar, einkum aftan til,
í gerð Eilharts og Bérouls. Hefur Gertrude Schoepperle rakið
það skilmerkilega. En það er ekki aðalatriði Trístanssögu. Aðal-
atriði hennar er hin mikla ástríða, sem vald fær yfir þeim
tveimur og heimtar fullnægingu; það er eins og ástin rísi
þar upp í hreinni veru sinni, móti þjóðfélaginu og siðalög-
máli þess, móti frændsemi og hollustu við konung þeirra, og
hefur í för með sér dauðann. Þessu er allt öðru vísi farið í
Kormakssögu, hún fjallar vissulega einnig um mannlega
harma, en hörmum hennar er þó ólíkt háttað. Kormakur fellir
við fyrstu sýn hug til Steingerðar og hún til hans, en þegar
brúðkaup þeirra á að standa, sækir hann það ekki, en jafn-
skjótt og hún er gefin öðrum, er hann óðfús að leita eftir
henni aftur. En þegar þau hvíla saman í kotbænum, kveður
hann vísur, sem eru torskildar, en auðsætt er, að þær fjalla
ekki um fullnægingu ástar þeirra, heldur þrána eftir að full-
næging hennar megi verða síðar. Ævi hans síðar er stöðug
leit eftir henni, fánýt leit, fundir þeirra eru allir jafn-fánýtir.
Loks þegar hann hefur bjargað henni úr höndum víkingsins
og hún vill ekki „hafa knífakaup“. er sem ást hans sé einhvem
veginn molnuð niður. Kormakssaga fjallar um ástir, sem molna
niður. Menn tala nú stundum um „tragedy of frustration“:
þvílíkt rit er Kormakssaga. Ekkert er ólíkara henni en Trístans-
saga, og eru þó báðar ástasögur. En ástin er nú einu sinni
eitt aðalsöguefni í skáldskap veraldar, og segir það eitt sér
ekkert til um bókmenntalegan skyldleika.
XII.
Vér skulum nú enn einu sinni leiða þau tvö, Kormak og
Steingerði, augum, áður en þau hverfa oss. Vísur hans, þegar
hann sér hana fyrsta sinni, sér hana koma í áttina til sín,