Skírnir - 01.01.1966, Page 208
206 Bergsteinn Jónsson Skírnir
um langan aldur hafði virzt óumdeilanlega markaður geiri
Óðins.
1 hópi þeirra, sem merkið hófu að nýju í nafni fræðslu-
stefnunnar undir lok átjándu aldar, var Hannes Finnsson,
síðasti biskupinn í Skálholti og sá, sem manna mest barðist
fyrir að flytja stólinn þaðan og nær hinum nýju miðstöðvum
mannfélagsins. En aðrir helztu menningarfrömuðir þessara
tíma voru fæstir andlegrar stéttar. Lærðustu guðfræðingar
landsins á fyrri helmingi nítjándu aldar, hinir háskólalærðu,
svo sem Steingrímur Jónsson biskup, sr. Árni Helgason og
Sveinbjörn Egilsson rektor, voru allir frábærir kennarar, en
frábitnir að mestu afskiptum af opinberum málum utan eigin
verkahrings, nema stjómin kveddi þá til. Vel mætti samt
gera sér í hugarlund, að sr. Árni hefði á öðrum tímum og við
aðrar aðstæður látið meira að sér kveða. Hann var a. m. k.
framarlega í flokki stofnenda Bókmenntafélagsins; og þegar
Klausturpósturinn var úr sögunni og Magnús Stephensen
látinn, brauzt hann í að hefja útgáfu Sunnanpóstsins, löndum
sínum til fróðleiks og hollrar skemmtunar.
Tómas Sæmundsson er hér sér í flokki hinna háskólalærðu
guðfræðinga og fyrirklerka. Gerðist hann einna fyrstur Is-
lendinga til þess að skrifa opinberlega um þjóðmál í anda
nýrra tíma, þeirrar aldar sem hófst með frönsku borgara-
byltingunni 1789.
Nú líður að því, að Danakonungur slaki á einveldi sínu.
En áður en þar kæmi, voru nokkur spor stigin i þá átt að
veita Islendingum tillögurétt í stjórn eigin mála. Er þá rétt
að huga að, hvern þátt andlega stéttin átti í þeim áfanga.
„Með konunglegum úrskurði 22. ágúst 1838 var skipuð
nefnd 10 íslenzkra embættismanna til að „rœða þau Islands
málefni, er mest þykja umvarðandi öllum almenningi, og
stjórnarráS vor munu senda þeim í því skyni, aS þeir rœSi
þau, og láta, aS því búnu, upp álit sitt og frumvörp.“ Nefndin
hélt fundi sína í stiftamtmannshúsinu í Reykjavík 1839 og
1841.“4)