Skírnir - 01.01.1966, Page 235
Sldrnir
Prestar ó Alþingi. 1845—1945
233
ljótur), en hann var samt þessi árin helzti málsvari endur-
skoðunarinnar í efri deild, þar sem Arnljótur sat þá.
Norður-Þingeyjarsýsla
var einmenningskjördæmi 1845—1873 og aftur frá 1881.
Þaðan komu til 1945 alls 15 þingmenn, þar af 5 prestar. Tveir
þeirra urðu þó ekki prestar fyrr en að þingmennsku lokinni,
og mun orka tvímælis að telja annan þeirra með, þótt gert sé.
Geta má, að 1857 átti sýslan engan fulltrúa á Alþingi.
Björn Halldórsson, heimiliskennari í Laufási, síðar aðstoðar-
prestur, sóknarprestur og prófastur á sama stað til dauðadags,
var 2. þjóðfundarfulltrúi sýslunnar 1851. Upp frá því reyndist
hann ófáanlegur til að taka kjöri til þings, þótt leitað væri.
Hann hafði samt oft afskipti af landsmálum, svo sem með
blaðaskrifum. Skáld var hann gott og hinn fjölhæfasti. Hann
var Bessastaðastúdent og einnig prestaskólamaður, þótt slíks
væri raunar ekki krafizt af Bessastaðamönnum. Var hann
einn fjögurra, sem brautskráðust í öðrum hópnum úr Presta-
skólanum, en af þeim urðu þeir tveir, sem fyrstu einkunn
fengu að því sinni, báðir alþingismenn. Meðal barna sr.
Bjarnar var Þórhallur biskup.
Sveinn Skúlason, ritstjóri Norðra á Akureyri og forstöðu-
maður prentsmiðjunnar þar, var þingmaður Norður-Þing-
eyjarsýslu tvö kjörtímabil, eða 1859—-1867. Hann var Reykja-
víkurstúdent, og stundaði hann um skeið nám við háskólann í
Kaupmannahöfn, einkum í málfræði og stjórnvísindum (hag-
fræði), án þess að ljúka prófi. Hann hafði því ekki rétt til
prestsembættis. En árið 1868, árið eftir að hann hvarf af þingi,
fékk hann undanþágu og veitingu brauðs. Var hann prestur
upp frá því til dauðadags. Hann þótti liðtækur þingmaður
og átti um skeið miklu gengi að fagna meðal almennings fyrir
skelegga baráttu fyrir niðurskurði kláðafjár, bæði á þingi
og í blaði sínu. En 1865 lenti hann í minnihlutanum í fjár-
hagsmálinu og síðan ásamt sr. Arnljóti í harðri andstöðu
við Jón Sigurðsson i stjórnarmálinu. Mun það hafa átt sinn
þátt í því, að Sveinn átti ekki afturkvæmt á þing, þótt hann
leitaði nokkrum sinnum fyrir sér.