Skírnir - 01.01.1966, Síða 292
288
Ritfregnir
Skírnir
Matthías yrkir nefnilega bezt, þegar hann er sem óháðastur gagnvart
eldra formi. Öháð form merkir í ljóðum hans sama og fersk hugsun, fersk-
ur blær, fersk tjáning í stuttu máli sagt. Með óháð form að umgerð tekst
skáldinu bezt upp í myndrænum samsetningum. Þar fellur allt hvað að
öðru: hrynjandi, málfar og líking.
En þar sem Matthías yrkir hefðbundið, eins og kallað er, vill málfarið
og stíllinn falla undir sömu hefðina. Ég undanskil þó einna helzt fyrsta
kvæðið, Stúlka með brún augu, sem mér þykir mjög fallega kveðið. En
kaflinn: Hér slær þitt hjarta, land — þykir mér hins vegar daufari en
aðrir kaflar hókarinnar. Einhvern veginn finnst mér sú hugsun óaðgengi-
leg, að svo mikill borgarbúi og borgarskáld sem Matthías er, geti kveðið
af tilfinning um gömul tún og lyngi vaxna hjalla og lágar tóttir, jafnvel
þó annað — honum nærtækara efni — búi undir. 1 hvert skipit, sem ég
les þess konar kvæði frá hans hendi, dettur mér í hug kenningin um
„impersonality", sem T. S. Eliot setti fram og lézt fara eftir.
Ekki ber þó svo að skilja, að Matthíasi fatist tökin á forminu sjálfu;
öðru nær. Miklu fremur mætti segja, að hann valdi því of auðveldlega,
að formið færi honum i hendur, það sem hann ætti sjálfur að láta af
mörkum.
Tærasti skáldskapur bókarinnar Fagur er dalur er að mínum dómi
Sálmar á atómöld, enda skipar höfundur þeim fremst í bók sinni.
Spyrja má, í hverju styrkur þeirra verka sé einkum fólginn.
Ég tel, að styrkur þeirra sé framar öðru fólginn í einfaldleikanum.
Að taka til meðferðar efni, sem er í sjálfu sér óskáldlegt, og rækta það
svo með sér, að það verði skóldlegt í framsetning — það er ef til vill
fyrsta kvöðin, sem hvílir á sérhverjum rithöfundi. Lélegar myndir þarfn-
ast skrautlegra ramma. En góðar myndir þarfnast ekki neinna ramma.
Auðveldara er að átta sig á Sélmum á atómöld fyrir þá sök, að þar fer svo
lítið fyrir rammanum. Einfaldleiki af því tagi, sem fram kemur í þessum
ljóðum, skírskotar beint til sérhvers venjulegs manns án hjálparmeðala.
Ég veit, að þessi staðhæfing er óljós, nema dæmi séu tilfærð. Það skal
því ekki látið undir höfuð leggjast. Hér fer á eftir eitt af styttri ljóðunum:
Bænin:
þessi einmana þögn
þetta þögula hvísl á vörum okkar
þessi þögn
óskrifað símskeyti
svart nrynjandi myrkur
undir hálfluktum augum
hraðskeyti milli þín og okkar
að þú fyrirgefir
vorar skuldir.