Skagfirðingabók - 01.01.1985, Side 39
ARNI I VIK
Búskaparhættir í Vík voru að tvennu leyti frábrugðnir því
sem þá gerðist hjá bændum. Annað var það að Arni
„færði frá“, og hitt var að hann takmarkaði vinnudag
fólks við tíu tíma vinnudag. Það fyrra var þá aflögð
búgrein, a. m. k. í Skagafirði, en það síðara braut alveg í
bág við aldagamla hefð. Þar dugði nú ekkert minna en
14—16 tíma vinnudagur um sláttinn . . .
Hér skal því skotið inn, að árið 1911 — 12 er Arni ekki
skráður bóndi í Vík. Hann leigir jörðina út, en hefur þó aðsetur
í Vík, enda skólinn starfandi hluta tímans. Hvað valdið hefur
þessari uppstyttu í búskapnum er ekki gott að segja um með
vissu. Fjárhagsörðugleikar kunna að hafa ráðið mestu. Einnig
hefur Arna e. t. v. fundist fullsnemmt að bindast búskapnum.
Hann virðist jafnvel hafa haft í huga að leggja enn í siglingu og
svipast um meðal framandi þjóða. A þessum árum er það líka að
Arni leggur á sig þónokkurt erfiði vegna vonar um vinnslu
steina og málma úr jörðu. Hann fór víða í þessu skyni og aflaði
sér sums staðar réttinda yfir landi til vinnslu góðmálma. Um
eitt slíkt tilfelli getur Kristmundur á Sjávarborg í Sauðárkróks-
sögu sinni (II, 132—4). Guðmundur Jakobsson góðkunningi
Arna var í félagi með honum í þessu ævintýri. Augljóst er af
bréfum Guðmundar til Arna, að sá fyrrnefndi hefur verið í
sambandi við erlenda aðila, sem áhuga sýndu á málm- og
steinvinnslu á Islandi. Arni trúði því bæði þá og síðar, að landið
væri ríkt. „Landið var ekki einungis fagurt í augum æskunnar,"
segir hann 50 árum síðar, „það átti nægan auð, en þjóðina skorti
þekkingu til að notfæra sér hann“ (Skinfaxi, 43). Manni verður
hugsað til bjartsýnismannsins Einars skálds Benediktssonar
sem á þessum árum gerði ráðstafanir til að vinna gull úr jörðu í
Miðdal. En augljóslega hefur Arni ekki auðgast á þessu áhuga-
máli sínu á þann hátt sem til stóð. — Þess má geta að Jón á
Hafsteinsstöðum, faðir Arna, sýndi námamálum mikinn áhuga
eins og fram kemur í bréfum hans til bróður síns í Vesturheimi,
Magnúsar frá Fjalli.
37