Skagfirðingabók - 01.01.1985, Page 113
KOFABÚI AF SKAGANUM
RISS UM GÍSLA FRÁ LÁGMÚLA
eftir HANNES PÉTURSSON
1.
Gísli Gíslason hét maður sem allir könnuðust við á Sauðárkróki
í æsku minni, kallaður Gísli á Eyrinni, einnig Gísli frá Lágmúla
eða Gísli lági, því hann ólst upp með foreldrum sínum á
Lágmúla, sjávarkoti utanvert á Skaga, og bjó þar síðan sjálfur
áður en hann fluttist í Krókinn á þriðja áratug aldarinnar, meira
en fimmtugur. I Skagfirzkum æviskrám er látið að því liggja að
Gísli væri ekki réttborinn Gíslason, bónda á Lágmúla Jóns-
sonar, „þótti sverja sig mjög til annars ætternis“, en um það mál
er mér alls ókunnugt. Kemp segir í óprentuðum þætti af Gísla
(aðallega gamanvísnaflokkur eftir ýmsa skagfirzka hagyrðinga,
kveðinn 1928 — 31), að hann væri kynstór „eftir því, sem um var
að gera á Skaga á hans hérvistar dögum þar, því skyldur var
hann gömlum og göfugum ættum á Skaganum, er hlotið höfðu
ýmsar vegtyllur í hreppnum . . .“ Móðir Gísla hét Þóra Jó-
hannsdóttir og var úr Blönduhlíð og Héðinsfirði.
Gísli átti heima í torfhúsi úti á Eyrinni. Það nefndist í byrjun
Hafliðabær, eftir Hafliða Gunnarssyni frá Skálarhnjúk í
Gönguskörðum sem reisti það um aldamót. Hafliði geðbilaðist,
varð förumaður og dó á Kleppsspítala 1929. Þegar ég fór að
muna til mín hétu þessi húsakynni yfirleitt Kofi Gísla lága,
Gíslabær eða eitthvað þvíumlíkt; hvaðeina sem minnti á Haf-
liða Gunnarsson virtist í fyrnsku fallið.
111