Skagfirðingabók - 01.01.1985, Blaðsíða 185
MINNINGABROT
mig og spurðu, hvað væri að hestinum, og svaraði ég þá með
latínu, ef þessi hafði verið gállinn á þeim.
Mjólkursamlagið á Sauðárkróki tók til starfa í júlí 1935 og
varð auðvitað lyftistöng fyrir búskap í héraðinu. Þessari nýju
starfsemi fylgdi sú kvöð, að fjós þurftu að fullnægja ákveðnum
kröfum um hreinlæti. Því var það, að Sigurður sýslumaður
Sigurðsson, hringdi í Hannes einhvern tíma árið 1936 og fór
fram á, að hann léti mig lausan til að gegna fyrir norðan.
Hannes og sýslumaður ræddu málin um stund, og kvaðst
læknir geta notað mig, en ekki vissi hann, hvort þeir gætu það
nyrðra! En svo fór, að ég var settur dýralæknir í Skagafirði í
ársbyrjun 1937.
Fyrstu vitjun mína í Skagafirði fór ég reyndar í sumarfríi frá
Hannesi. Hringt var í mig og ég beðinn að koma fram í Gilkot,
en þar var kýr í nauðum. Eg var heldur tregur til, en lét loks til
leiðast og Arni Rögnvaldsson ók mér frameftir. Eg skoðaði
kúna og fann hún var með snúið leg, og með ýmsum tilfæring-
um tókst mér að snúa ofan af því með aðstoð heimamanna, og
kálfurinn fæddist sprelllifandi.
Eg hóf eftirlit með fjósum sumarið 1937 og fór ríðandi bæ frá
bæ. Eg hafði heyrt, að tveir bændur hygðust meina mér að
skoða fjós sín og ákvað, að á þessum bæjum skyldi ég gista. Á
hinum fyrri, í Lýtingsstaðahreppi, meinaði bóndi mér að ganga
í fjós og sagði: „Það er ekkert að hjá mér." Eg tilkynnti honum,
að ég lokaði fyrir mjólkursölu frá honum, nema ég fengi að
skoða fjósið, og lét hann sér segjast. Við ræddumst svo við um
kvöldið og skildum í bróðerni um morguninn, enda bóndi
greindur og grandvar. Á hinum bænum, í Blönduhlíð, var afar
ljótt fjós, hænsn og rottur gengu þar um, flórinn var lítt þrifinn,
og að auki gekk bæjarfólk þar erinda sinna. Þetta fjós fékk
lélegasta vottorðið mitt, en alls lokaði ég á sjö bæi um sumarið,
viku í hvert sinn til að menn gætu bætt ráð sitt. Þegar mjólkur-
183