Skagfirðingabók - 01.01.1985, Blaðsíða 142
SKAGFIRÐINGABÓK
um það, hver ætti dómsvald í svona klerkamálum. Harka
Guðmundar lýsir sér í því, að eftir að Kolbeinn hefur látið
dæma klerkinn samkvæmt landslögum, forboðar Guðmundur
hann. Slíkt er náttúrulega jafngildi stríðsyfirlýsingar.
Röksemdir fyrir lögtöku kristni um 1000 voru þær, að það
væri vænlegt að hafa ein lög, annars væri friðurinn úti. Nú hafði
Guðmundur stillt dæminu þannig upp, að lögin voru tvenn
þrátt fyrir kristni og að nú varðaði það bannfæringu að viður-
kenna ekki dómsvald kirkjunnar.
Annað atriði, þar sem árekstur stendur á milli guðslaga og
landslaga, er yfirráð yfir sóknarkirkjunum. Samkvæmt lands-
lögum réðu einstakir bændur og höfðingjar yfir þeim, ef þær
höfðu verið reistar af þeim eða forverum þeirra. En þetta var
andstætt guðslögum. Einkakirkjuskipanin fór í bága við þau.
Þess vegna hafði þetta yfirleitt alls staðar verið afnumið nema á
Islandi. Hér hefur Guðmundur vafalaust fylgt stefnu norsku
kirkjunnar og reynt með öllum ráðum að sölsa undir sig umráð
yfir kirkjunum. Að þessu lúta ummæli Sturlu um ágreining um
kirkjufjárhald og að bændur þóttust hvorki mega sitja né standa
í friði fyrir Guðmundi.
Umráðum yfir kirkjunum fylgdu einnig umráð yfir prestsem-
bættum. Kirkjuhaldararnir réðu þessu, en slíkt fór í bága við
guðslög. Kirkjan átti sjálf að hafa full yfirráð yfir veitingu eigin
embætta, hvort heldur þau voru há eða lág.
Umráðum yfir kirkjunum og prestsembættunum fylgdu
einnig umráð yfir þeim tekjustofnum, sem lögðust til kirkna og
presta. Þetta voru tveir hlutar af fjórum í tíundinni, kirkjutíund
og preststíund. Samkvæmt landslögum fékk kirkjuhaldarinn
þessa tekjustofna, og hann notaði síðan preststíundina til að
standa straum af guðsþjónustum og annarri starfsemi, sem fara
skyldi fram samkvæmt reglum um lögboðið kristnihald. Hér er
því frásögn Sturlu á réttum stað, er hann talar um ágreining
vegna tíundarmála. Samkvæmt guðslögum skyldu tekjustofnar
kirkjunnar tilheyra kirkjunni sjálfri sem stofnun.ls
140