Skagfirðingabók - 01.01.1989, Blaðsíða 156
SKAGFIRÐINGABÓK
Sigríður og Sveinbjörn. Sagt var, að gamall berklaveikur
maður, sem var á heimilinu, hefði smitað þau. Agúst var
elztur og farinn að vinna fyrir sér, síðan ég og Magnús
yngstur, átta árum yngri en ég.
Fyrsta sumarið okkar á Króknum var ég lánuð að
Hvammi í Langadal. Þar bjuggu þá Valgerður Guðmunds-
dóttir og Frímann Björnsson, ágæt hjón. Þar var ég látin
gæta barna, tveggja drengja, en einnig var mitt verk að bera
matinn og kaffið á engjarnar. Þarna leið mér vel þótt ég
hefði mikið að gera, en það vildi mér til, að ég var hraust og
heilsugóð. Eg held, að hjónunum hafi líkað vel við mig, því
að þau vildu helzt hafa mig áfram um veturinn. Það voru
mjög slæmar ástæður á heimilinu, því að húsmóðirin lá að
mestu í rúminu allt sumarið. Hún var með svokallaða sulla-
veiki, en fékk fullan bata eftir uppskurð á Akureyri og átti
að minnsta kosti tvo syni eftir þá aðgerð.
Um haustið fór ég svo í barnaskólann á Sauðárkróki. Mér
þótti gaman að læra og vera með svo mörgum unglingum á
mínu reki. Kennarinn var líka ágætur, og við tókum miklum
framförum undir stjórn hans. Við börnin á Laxárdalnum
höfðum einnig haft ágætan kennara, Halldór Halldórsson
frá Móbergi, og voru þeir faðir minn systkinasynir.
Tvær fjölskyldur eru mér einna minnisstæðastar frá Sauð-
árkróki. Fyrst skal nefna Kristján Gíslason kaupmann og
frú Björgu Eiríksdóttur konu hans. Ég var þar í ýmsum
snúningum innan húss og einnig að líta eftir yngsta barninu,
og voru þau mér eins og beztu foreldrar. Maður lærði líka
mikið á að umgangast þetta merkisheimili. Kristján rak
stóra verzlun og var vel látinn af öllum, sem höfðu viðskipti
við hann, enda var mjög gestkvæmt á heimilinu og mikil
risna. Frú Björg stjórnaði þessu stóra heimili af miklum
myndarskap, þarna komu margir úr sveitinni, bæði til að
verzla og heilsa upp á hjónin, og var öllum vel tekið, hvort
sem þeir voru ríkir eða snauðir. Börnin voru fimm: Axel,
152