Skagfirðingabók - 01.01.1989, Blaðsíða 170
SKAGFIRÐINGABÓK
bjó á Rauðalæk á Þelamörk, nýlega kvæntur móður minni,
þá var þeim hjónum boðið kvöld eitt til næsta bæjar til að
spila, og var spiluð trompvist. Þá var sú venjan að draga um
hverjir skyldu vera saman. Og nú fór svo, að pabbi varð á
móti heimakonunni, sem var fíkin í spil og skapkona mikil.
Pabbi var hins vegar ákaflega áhugalítill um spil og spilaði
nær aldrei. En ef svo vildi til, tapaði hann oftast og tók það
ekki nærri sér. Sagt var, að sumir væru óheppnir í spilum,
og svo fór nú. Pabbi fékk aldrei „blað“ og olli þannig sam-
eiginlegu tapi. Mamma og mótspilamaður hennar græddu,
gerðu jafnvel alslemm og léku á als oddi. Ekki bætti úr
skák, að heimabóndi var meinstríðinn og gerði óspart gys
að spilamennsku konu sinnar og pabba. Varð pabbi þeirri
stund fegnastur, er staðið var upp frá spilamennskunni, því
að mótspilakona hans var svo reið orðin, að hún hélt naum-
ast vatni fyrir vonzku.
Ævinlega var spilað við litla borðið, sem stóð við fremsta
rúmið í Egilsárbaðstofu og milli mið- og fremsta glugga.
Undir þessu borði stóð hvíta koffortið, ómálað og ákaflega
yfirlætislaust, en ei að síður stórmerkilegur gripur, eyfirzkr-
ar ættar, eins og rúm foreldra minna, ásamt bakstólnum,
hesputrénu og fleiri furðuverkum þessarar hlýlegu baðstofu
bernsku minnar, þar sem kollstóllinn þrífætti varð tíðum að
báti að róa á fram og aftur um gólfið, sem var svo vinsam-
legt að verða að úthafi með framandi þjóðlöndum á alla
vegu.
A hvíta koffortinu voru pottkökurnar látnar lyfta sér
undir votum klút með ullarþríhyrnu ofan á. Þannig bjuggu
þær sig undir ævistarfið að verða að rauðseyddu, ilmandi
lostæti, eftir að hafa hvílt undir potti í hlóðum með glóð
bæði undir og ofan á. Lok þessa kofforts var sorfið af tíðum
sandskúringum utan stóri kvisturinn, sem ekkert vann á, og
var góðvinur minn á þeim dögum ásamt fleirum. Á öðrum
166