Skagfirðingabók - 01.01.1989, Blaðsíða 163
MINNINGAR ÚR SKAGAFIRÐI
mína í Húsey og var hjá henni nóttina. Hún tók mér mjög
vel, færði mér súkkulaði og kökur í rúmið um morguninn,
og fannst mér það hámark gestrisninnar hjá henni. Slík við-
höfn tilheyrði aðeins betri næturgestum!
A þessum árum þekktust varla girðingar kringum tún,
hvað þá engjar eða beitiland. Þá varð bara hver bóndi að
verja sitt land. Eins og gengur vildi það oft til, að skepnur
kæmu frá næstu bæjum, sérstaklega kýrnar. A bæ einum
skammt frá Vallholti var stórt naut, sem gekk með kúnum
og höfð á því hnyðja, svo það gæti ekki hlaupið eins hratt.
Bræðurnir voru stundum að hræða okkur á bola, því að
sennilega væri hann mannýgur. Sérstaklega var okkur ráð-
lagt að klæðast ekki rauðum flíkum, því að það hefði æsandi
áhrif á bola. Það var svo dag nokkurn seinnipart sumars, að
við vorum að raka ljá út á engjum nokkuð langt frá bænum.
Komið var nálægt mjaltatíma, og átti Margrét að hjálpa til
við mjaltirnar. Eg vildi endilega ljúka við að raka ljána, svo
ég varð ein eftir. En skömmu eftir að Magga fór, heyri ég
öskur í nauti, og verður mér þá litið í þá átt, sem öskrið
kom úr. Sé ég þá, hvar rauði boli kemur á harða spretti og
stefnir beint þangað sem ég var að raka. Nú voru góð ráð
dýr, engir möguleikar að komast heim til bæjar undan hon-
um, það var of langt. En þegar neyðin er stærst er hjálpin
næst. Skammt fyrir vestan þar sem ég var hafði um vorið
verið grafinn skurður. Hann var að vísu nokkuð breiður og
fullur af vatni, og taldi ég óhugsandi, að hægt væri að
stökkva yfir hann, og ef ég dytti væri dauðinn vís. En að
hika er sama og tapa, og nú tók ég langt tilhlaup og stökk
og komst naumlega yfir á hinn bakkann. En boli staðnæmd-
ist við skurðinn og sendi mér bara tóninn og rótaði upp
þúfunum hinum megin. Það hafði sézt til okkar heiman frá
bænum, og komu piltarnir ríðandi, tóku bola og fóru með
hann þangað sem hann átti heima og afsögðu með öllu, að
hann væri látinn ganga með kúnum eftirleiðis. Það var tekið
159