Skagfirðingabók - 01.01.1989, Blaðsíða 168
SKAGFIRÐINGABÓK
gerði, sem Mangi kom mjög oft til okkar að Egilsá. Eftir að
mesta annatíma var lokið, til dæmis á haustin, kom hann oft
daglega, stundum tvisvar á dag. Og fyrir kom, að hann rak
höfuðið í þriðja sinn inn um lágar baðstofudyrnar - og þótti
engum of mikið. Oftast heilsaði hann þó með kossi, eins og
þá var flestra siður. Helzt voru það unglingar, sem köstuðu
kveðju, og þá oftast „sælinú“, og þótti ekki virðulegt. Ætíð
borðaði Mangi með okkur og drakk, eins og heimamaður
væri, og var talið sjálfsagt. A vetrum stóð hann oft við fram
í vökulok og spilaði við okkur eða söng og kvað, ef gestir
voru komnir og svo bar við, að þær göfugu listir voru iðk-
aðar í Egilsárbaðstofu. Það var nokkuð oft á þessum árum.
Gísli Gottskálksson var hjá okkur að minnsta kosti tvo
vetrartíma eða þrjá við kennslu. Gísli var gleðimaður mikill
og hrókur alls fagnaðar hvar sem fór, enda vinsæll og vin-
margur. Það mátti heita föst venja að taka lagið á kvöldin
eða hafa uppi annan gleðskap, þegar Gísli var, og alveg sjálf-
sagt, ef Mangi var kominn eða aðrir léttlyndir gestir; gilti
nær einu, hvort menn gátu sungið eða ekki. Menn sungu
samt, og veit ég ekki betur en öllum þætti gaman. Oftast
stóðum við þétt saman á miðju baðstofugólfinu og héldum
tíðum hver utan um annan og vögguðum okkur. Pabbi lá
aftur á bak fyrir ofan mömmu, sem sat á rúmstokknum og
prjónaði eða spann. Fyrir kom, að hún söng með, einnig
Freyja fóstursystir mín, enda höfðu þær laglega söngrödd,
sungu líklega bezt. Jóhann Höskuldur söng hæst, fór upp á
stemmunni og tók bakfall um leið.
Gísli Gottskálksson var gagnfræðingur að mennt. Hann
varð síðar tengdasonur Jóhanns á Ulfsstöðum, bjó í Sól-
heimagerði í Blönduhlíð og var um alllangt skeið skólastjóri
barnaskóla Akrahrepps, en stundaði vegavinnuverkstjórn á
sumrum.
Jóhann Höskuldur var sonur Stefáns Sveinssonar stór-
bónda á Uppsölum og hálfbróðir Jóhannesar Birkilands rit-
164