Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Side 4
3
Ritið 3/2016, bls. 3–6
Vísindi, sannleikur og aðferðafræði
„Horfðu á númerin … og byrjaðu að telja í hljóði … Haltu áfram að telja
þar til þú ferð að sofa. Daginn eftir … muntu upplifa tímabundna sturlun.“
Þannig hljóða fyrirmælin í þátttökuverkinu 7 eftir Steingrím Eyfjörð, sem
er á forsíðu þessa heftis. Verkið er sérstaklega unnið fyrir myndlistarsýn-
ingu sem var sett upp fyrir málþingið Psychoanalysis, Art and the Occult
sem haldið var í Candid Arts í London vorið 2016. Slík tenging sálfræðinn-
ar við hið dulspekilega er í beinni andstöðu við áherslur sálfræðinnar sem
akademískrar vísindagreinar, en Steingrímur Eyfjörð er einn af þeim fjöl-
mörgu listamönnum sem varpa ljósi á vísindalega orðræðu og aðferðafræði
með því að setja hana í óhefðbundið og það sem yfirleitt telst óviðeigandi
samhengi út frá sjónarhorni akademíunnar. Í umfjöllun um þessa tilteknu
myndlistarsýningu segir Claire-Madeline Culkin að verkin þar virðist
sköpuð á landamærum merkingar og merkingarleysis, óreiðu og skipulags,
og að sum verkin, til dæmis þetta verk Steingríms Eyfjörð, skírskoti aug-
ljóslega til táknkerfa.1 Tilraunir sem minna á aðferðafræði reynsluvísinda
einkenna einnig mörg verk Steingríms, þótt viðfangsefnið sé meira í ætt
við sálarrannsóknir, vísindalega dulspeki eða dulsálarfræði og þar með utan
hins hefðbundna akademíska vísindasviðs.2 Árið 2009 setti Steingrímur til
dæmis upp, í Listasafni Mosfellsbæjar, Orgon-kassa eða líforkusafnara sál-
fræðingsins Wilhelms Reich sem taldi sig hafa fundið aðferð til að mæla
1 Claire-Madeline Culkin, „Psychoanalysis, Art and the Occult. Cutting Up a
New Conversation“, Metapsychosis. Journal of Consciousness, Culture, and Planetary
Thought, 16. nóvember 2016, sótt 12. desember 2016 af https://www.metapsycho-
sis.com/psychoanalysis-art-and-the-occult-cutting-up-a-new-conversation/.
2 Í næsta hefti Ritsins verður slíkum hugmyndum reyndar ögrað að einhverju leyti
þar sem það verður helgað dulspeki.